„Þegar ég talaði um sjónarmið í viðtalinu þá átti ég augljóslega ekki við að eitthvað hefði verið ákveðið með undirritun á skjali eða einhverju slíku. Þetta er meira í ætt við sameiginlega niðurstöðu sem báðir aðilar komust að þannig að það er ekki hægt að tala um neina nákvæma tímasetningu eða nákvæmlega hvaða einstaklingar hafa komist að þessari niðurstöðu.“
Þetta segir Cristian Dan Preda, þingmaður á Evrópuþinginu og talsmaður utanríkismálanefndar þingsins vegna umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið, í samtali við mbl.is. Preda var spurður út í þau ummæli hans í viðtali við vefmiðilinn Eyjan.is skömmu fyrir jól að það sjónarmið hafi að lokum orðið ofan á í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins að erfiðustu kaflarnir svonefndir í viðræðunum um inngöngu Íslands í sambandið, það er sjávarútvegs- og landbúnaðarmál, yrðu teknir fyrir síðast. Hann var einnig spurður að því hvenær það hafi verið samþykkt og af hverjum.
„Síðara sjónarmiðið samþykkt“
„Það er rétt að á Íslandi og í Evrópusambandinu eru á sama tíma uppi ólíkar skoðanir um erfiðustu kaflana. Sumir segja að það hefði verið betra að opna erfiðu kaflana sem fyrst en hins vegar hafa aðrir sagt að það væri betra að taka erfiðu kaflana fyrir í lokin. Að endingu varð síðara sjónarmiðið samþykkt,“ sagði Preda í viðtalinu sem tekið var upp á myndband í Brussel og birt 22. desember síðastliðinn í tengslum við ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins um umsókn Íslands.
„Sú staðreynd að við ákváðum að taka erfiðustu kaflana fyrir í lokin er mjög góð lausn,“ sagði Preda ennfremur síðar í viðtalinu og bætti við að gott væri að halda þannig á málum til þess að sem mestur tími fengist til þess að fjalla um erfiðu kaflana, spurður að því hvernig hægt væri að segja að umsóknin væri á góðu róli í ljósi þess að þeir hefðu ekki enn verið teknir fyrir. Vildi hann eftir sem áður meina að viðræðurnar gengju vel.
ESB ekki skilað af sér skýrslunni
Skemmst er frá því að segja að lítið hefur þokast til þessa varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarkafla viðræðnanna líkt og fjallað hefur verið um hér á mbl.is og í heildina hafa viðræðurnar dregist mjög á langinn miðað við það sem lagt var upp með af stjórnvöldum. Þannig hefur til að mynda rýniskýrslan um sjávarútvegsmál, þar sem löggjöf Íslands og Evrópusambandsins er borin saman og greint hvað beri í milli, ekki verið afgreidd af sambandinu þrátt fyrir að hafa verið tilbúin í drögum síðan á fyrri hluta síðasta árs.
Rýniskýrslan er forsenda þess að hægt sé að hefja viðræður um sjávarútvegsmálin en samningsafstaða Íslands í málaflokknum liggur enn ekki fyrir að sögn meðal annars vegna þess að skýrslan hefur ekki skilað sér frá Brussel. Dráttur í þeim efnum hefur verið skýrður með makríldeilunni og yfirstandandi endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins en hins vegar hafa mjög misvísandi skilaboð borist um það hvort þetta tvennt hafi haft úrslitaáhrif á málið eða ekki.
Viðræðurnar dregist á langinn
Lengi vel var því haldið á lofti að ástæðan fyrir töfum varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann væri andstaða Jóns Bjarnasonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við umsóknina. Þó verður ekki séð að mikið hafi gerst í þeim efnum síðan Jón lét af embætti fyrir ári. Stefnt var að því í lok árs 2011 að búið væri að opna alla kafla viðræðnanna um mitt síðasta ár en því var síðan frestað til nýliðinna áramóta. Nú er hins vegar útlit fyrir að það verði í fyrsta lagi raunin í lok þessa árs verði viðræðunum haldið áfram eftir þingkosningarnar í vor.
Ýmsir forystumenn innan Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa kallað eftir því á kjörtímabilinu að sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflarnir yrði opnaðir sem fyrst og niðurstaða fengin í þær viðræður helst fyrir lok þess, til að mynda Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem hefur að undanförnu ítrekað lýst vonbrigðum sínum með að kaflarnir hafi ekki verið opnaðir og að viðræðurnar í heild hafi dregist á langinn. Þá hefur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagt að hann hafi lagt á það áherslu við Evrópusambandið að erfiðustu kaflarnir yrðu teknir fyrir sem fyrst.
Óljóst hverjir hafi komið að málinu
Ekki fengust nákvæm svör við því hjá Preda hverjir hér á landi hafi verið á einn eða annan hátt aðilar að þeirri niðurstöðu að sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflarnir yrðu teknir fyrir síðastir en ekki fyrr í ferlinu né hvenær sú niðurstaða hafi legið fyrir. Hins vegar verður ekki betur séð af orðum hans en að um hafi verið að ræða einhvers konar niðurstöðu í samskiptum íslenskra ráðamanna og Evrópusambandsins.
Hverjir sem annars kunna að hafa komið að málinu hér á landi er í það minnsta ljóst ef marka má ummæli Preda að Evrópusambandið hefur það að yfirlýstri stefnu að erfiðustu kaflarnir svokallaðir um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál verði ekki teknir fyrir fyrr en í lok viðræðnanna um inngöngu Íslands í sambandið.