Borgarfulltrúinn Sóley Tómasdóttir segir á vefsvæðinu Knúz að hún búi yfir upplýsingum um mann sem tengist barnastarfi og borgarkerfinu sem kærður var til lögreglu vegna tilraunar til að brjóta gegn barni kynferðislega. Lögregla sendi málið til saksóknara sem felldi það niður.
„Ég er sem sagt með upplýsingar um nafn þessa manns og stöðu og frásögn af því sem hann á að hafa gert en ég er líka með bréf frá saksóknara um að málið hafi verið fellt niður vegna skorts á sönnunum þótt í því standi líka að líklegt sé að eitthvað hafi gerst umrædda nótt.
Hvað á ég að gera við upplýsingar sem þessar?“
Sóley segist geta opinberað upplýsingarnar og nafngreint manninn. „Þá myndi einhver segja að ég sé að brjóta gegn grundvallarreglu réttarríkisins og láta samfélagið um framhaldið (eða að „taka manninn af lífi án dóms og laga“), þótt auðvitað skuli maðurinn teljast saklaus gagnvart yfirvöldum uns sekt hans er sönnuð.“
Hún geti einnig haft samband við þá sem tengjast manninum og farið fram á hann verði látinn fara. Þá verði þá gert en hann hafi möguleika á að leita í annað starf í tengslum við börn.
Þá geti hún látið sem ekkert sé og treyst réttarkerfinu.
„Það á ekki að vera á valdi einstaklinga að velja milli þeirra vondu kosta sem ég stend frammi fyrir núna. Samfélagið á að taka á kynferðisafbrotum af myndugleika, það á að verja börn gegn hvers kyns ofbeldi og koma höndum yfir gerendurna. Samfélag sem ekki gerir það er samfélag sem leyfir ofbeldi að grassera og hvetur bæði til þöggunar og mannorðsmorða, því gerendur eru sjaldan dæmdir sekir. Vandinn liggur í meingölluðu réttarríki sem tekur ekki á þessum málum.“