Þótt frumvörp um fækkun sýslumanna og lögreglustjóra séu óafgreidd á Alþingi er í raun farið að undirbúa fækkun sýslumanna.
Þannig gegnir sýslumaðurinn í Kópavogi jafnframt embættinu í Hafnarfirði og sýslumaðurinn á Ísafirði er sýslumaður á Patreksfirði. Frá og með næstu mánaðamótum mun sýslumaðurinn á Blönduósi stýra embættinu á Sauðárkróki.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir, að stjórnsýsla ríkisins í héraði hefur verið í gerjun í mörg ár. Mestar breytingar hafa orðið á lögreglumálum þar sem ákveðnum sýslumönnum hefur verið falið að annast lögreglustjórn á stærri svæðum og fara með rannsókn mála á enn stærri svæðum.
Í frumvörpunum sem liggja fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að 8 sýslumenn verði í landinu í stað 24 og 8 lögreglustjórar í stað 15. Þótt umdæmamörk verði ekki ákveðin í lögunum vísa heiti embættanna til gömlu kjördæmamarkanna nema hvað höfuðborgarsvæðið verður eitt.