Sérstakur saksóknari hefur ákært fyrrverandi starfsmann flokkahóps íhaldsmanna í Norðurlandaráði fyrir umboðssvik á árunum 2009-2011. Maðurinn sveik út rúmar 19 milljónir króna á tímabilinu og tók til dæmis sjaldnast minna út úr hraðbönkum en 100 þúsund krónur í einu.
Maðurinn sem er þrítugur var ritari flokkahóps íhaldsmanna í Norðurlandaráði. Sem slíkur hafði hann aðstöðu á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Valhöll en taldist ekki starfsmaður flokksins. Vegna starfa sinna fékk hann þó kreditkort frá Sjálfstæðisflokknum og var honum ætlað að greiða með því útgjöld tengd störfum flokkahópsins.
Grunsemdir vöknuðu á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins og fór svo að flokkurinn kærði manninn til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í apríl 2011. Þegar málið kom upp hvarf maðurinn sporlaust. Utanríkisráðuneytið var beðið um aðstoð við að hafa upp á honum og fannst hann í New York.
Í ákæru er maðurinn ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína og skuldbinda Sjálfstæðisflokkinn þegar hann í 321 skipti notaði kreditkort flokksins til úttekta á reiðufé, kaupa á vörum og þjónustu fyrir 19,4 milljónir króna.
Ákæran var gefin út 18. desember síðastliðinn en eflaust hefur tekið nokkurn tíma að birta hana manninum þar sem hann er með lögheimili í Rúmeníu.
Ef rennt er yfir færslurnar sem ákært er fyrir má sjá að þær eru í íslenskum krónum, dönskum krónum, evrum, Bandaríkjadölum, sterlingspundum, kínverskum yuanum og tékkneskum krónum.
Þá tók maðurinn út 100 þúsund krónur úr íslenskum hraðbönkum í 82 skipti, til dæmis 14 sinnum frá 4. maí til 28. júní 2010. Einnig tók hann út 4., 5., 6., 8., 11. og 21. október 2010. Alltaf 100 þúsund krónur.
Jafnframt er töluvert um að háar upphæðir rynnu til Icelandair, væntanlega til kaupa á flugferðum, hæsta einstaka upphæðin nemur 273 þúsund krónum.
Hæsta einstaka færslan nam 510 þúsund krónum og var framkvæmd í Vínarborg 7. september 2010 hjá Uhrmachermeister Huebn sem myndi á íslensku útleggjast sem Úrsmíðameistarinn Huebn.
Sjálfstæðisflokkurinn gerir þá kröfu í málinu að maðurinn verði dæmdur til að greiða flokknum upphæðina alla, þ.e. 19,4 milljónir króna, auk vaxta. Þá er þess krafist að maðurinn greiði flokknum málskostnað að skaðlausu.