Segja Inga ýta undir andúð

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir.
Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir. Árvakur/Brynjar Gauti

Skrif fréttastjóra DV fela almennt ekki í sér málefnalega eða upplýsandi umfjöllun, heldur bera þau ríkan keim af hatursáróðri í garð tiltekinna einstaklinga. Þetta segir í stefnu Ágústs og Lýðs Guðmundssona á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni.

Ágúst og Lýður stefna Inga fyrir ærumeiðandi skrif í leiðara DV sem birtist í DV 24. október. Gerð er sú krafa að fern tiltekin ummæli verði dæmd dauð og ómerk og Ingi Freyr greiði bræðrunum 800 þúsund krónur til að kosta birtingu dóms í málinu. Þeir krefjast hins vegar ekki miskabóta vegna skrifanna.

Leiðarinn var skrifaður undir fyrirsögninni „Réttlæti er ekki til“. Þau ummæli sem bræðurnir krefjast að verði dæmd dauð og ómerk eru eftirfarandi:

  • Þetta voru peningar sem þeir höfðu tekið í arð út úr íslenskum hlutafélögum sínum á árunum fyrir hrunið.
  • Bakkabræður halda því hins vegar arðgreiðslum upp á milljarða sem þeir tóku út úr eignarhaldsfélaginu sem þarf að afskrifa 22 milljarða hjá.
  • Arðgreiðslurnar byggðu því á blekkingum.
  • Þau uppkaup kunna að vera fjármögnuð með arðgreiðslum sem þeir tóku út úr íslenska hagkerfinu á árunum fyrir hrunið.

Aðdróttun um refsiverða háttsemi

Ágúst og Lýður gera kröfu um að ummælin verði ómerkt í heild sinni. Þau verði að skoða heildstætt og í tengslum við efni leiðarans. „Í ummælunum er stefnendum borið á brýn að hafa með blekkingum tekið sér arð úr hérlendum hlutafélögum og flutt hann úr landi. Í þessu felst aðdróttun af hálfu stefnda, Inga Freys, um refsiverða háttsemi stefnenda; háttsemi sem félli undir ákvæði 26. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsiákvæði laga um hlutafélög, ef sönn væri.“

Þá er á það bent að Ágúst og Lýður gætu ekki hafa tekið sér arð út úr hlutafélögum heldur þurfi hluthafafundur að fjalla um formlegar tillögur um greiðslu arðs og samþykkja fjárhæð hans eða hundraðshluta. Ekki megi greiða hluthöfum arð fyrr en samþykkt hluthafafundar liggur fyrir.

„Tilvitnuð skrif stefnda, Inga Freys, birtust í DV og á dv.is. Þau eru ósönn og fela í sér grófa aðdróttun, sem borin var út opinberlega og gegn betri vitund. Ummælin eru til þess fallin að vera virðingu stefnenda til hnekkis, móðgandi og fela í sér aðdróttun í garð stefnenda og fara því í bága við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“

Hatursáróður bannaður í fjölmiðlum

Þá segir að leiðaraskrif Inga Freyr séu ekki til að styðja við eða stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu, heldur til þess fallin að meiða æru Ágústs og Lýðs með aðdróttunum um ólögmæta og refsiverða háttsemi „og kynda undir andúð á þeim í íslensku samfélagi.“

Ennfremur segir að tjáningarfrelsi Inga Freys sé ekki skert ef ummælin eru dæmd dauð og ómerk. „Inga Frey er frjálst að fjalla um fjármál og viðskipti stefnenda hér á landi og erlendis sé það gert í samræmi við þær siðareglur sem blaðamenn hafa sett sér og miða að því gætt sé hlutlægni og reynt að tryggja upplýsta og vitræna umræðu um málefni líðandi stundar.“

Í stefnunni segir að skrif Inga Freys beri ríkan keim af hatursáróðri en hatursáróður sé bannaður í fjölmiðlum, sbr. 27. grein laga um fjölmiðla. Hún hljóðar svo: „Bannað er að kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.“

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. janúar næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka