Svarar Steingrími fullum hálsi

Boltinn er hjá Íslendingum í makríldeilunni og eins og sakir standa halda þeir makrílnum í gíslingu í eigin þágu án tillits til sjálfbærni stofnsins eða annarra ríkja sem hafa veitt úr honum. Þetta segir Ian Gatt, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í svargrein í dagblaðinu The Scotsman til Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, en ráðherrann ritaði nýverið grein í blaðið þar sem hann gerði grein fyrir málstað Íslendinga í deilunni.

Gatt segir í grein sinni að furðulegt sé að Steingrímur beri það fyrir sig að Íslendingar vilji stuðla að sjálfbærri veiði á makrílstofninum í ljósi þess að þeir hafi ákveðið að taka sér einhliða margfalt það magn af makríl sem þeir hafi veitt áður. Hann hafnar því ennfremur að aukin gegnd makríls inn í íslensku efnahagslögsöguna sé vegna loftlagsbreytinga heldur sé ástæðan vöxtur stofnsins sem sé meðal annars afleiðing ábyrgra veiða Norðmanna og Evrópusambandsins.

„Makríllinn er í lögsögum Evrópusambandsins og Noregs í níu mánuði á ári og á þeim tíma veiða skoskir bátar hann aðeins í um sex vikur til þess að fara eftir vísindalegri ráðgjöf og tryggja sjálfbærni stofnsins til framtíðar. Á hinn bóginn reyna Íslendingar að veiða eins mikið og þeir geta þá þrjá mánuði sem makríllinn er í íslensku lögsögunni,“ segir Gatt ennfremur.

Þá segir hann að samninganefndir Norðmanna og Evrópusambandsins hafi lagt fram nokkur sanngjörn tilboð í viðræðunum sem fram hafi farið um laun makríldeilunnar en þeim hafi öllum verið hafnað af Íslendingum án tilrauna til þess að ná skynsamlegri málamiðlun. Gatt segir ennfremur að Íslendingar hafi aldrei á þeim 15 viðræðufundum sem fram hafi farið um deiluna lagt fram tillögu að málamiðlun.

„Það er varla framganga þjóðar sem vill ná samningum. Evrópusambandið og Noregur eru orðin það óþolinmóð gagnvart óbilgirni Íslendinga að þau munu aðeins hefja viðræður aftur ef Íslendingar eru reiðubúnir að leggja fram tilboð. Það er líka ástæða þess að Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til refsiaðgerða sem síðasta úrræði til þess að reyna að fá Íslendinga til þess að semja,“ segir hann.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert