Tillaga um ESB-hlé lögð fram

AFP

Tillaga meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis var tekin formlega fyrir á fundi nefndarinnar í morgun en tillagan var lögð fram á fundi hennar 18. desember síðastliðinn. Þá var óskað eftir því að tillagan yrði tekin fyrir á næsta fundi utanríkismálanefndar sem til stóð að halda 20. desember en þeim fundi var hins vegar aflýst af formanni nefndarinnar, Árna Þór Sigurðssyni, áður en til hans kom.

Tillagan er lögð fram af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd auk Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hún gengur út á að gert verði hlé á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið og þær ekki hafnar á ný nema að undangengnu samþykki í þjóðaratkvæði.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd, segir í samtali við mbl.is að ákveðið hafi verið að taka tillöguna fyrir á næsta fundi nefndarinnar sem hún segist aðspurð gera ráð fyrir að verði eftir helgi. Þá verði tillagan líklega lögð fram í nafni meirihluta nefndarinnar en ekki nefndinni í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka