Tóku sig á eftir bók Thelmu

Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sem vinna með börnum fara á fræðslunámskeið á …
Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sem vinna með börnum fara á fræðslunámskeið á vegum Blátt áfram. Kristinn Ingvarsson

Allir starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sem starfa með börnum og unglingum fara á námskeið þar sem þeir eru fræddir um einkenni kynferðislegs ofbeldis á börnum og hvernig bregðast eigi við því þegar börn segja frá slíkum málum. Ákveðið var að fara í þessa vinnu eftir að bók Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem Gerður Kristný ritaði, kom út, en þar segir frá ofbeldi sem Thelma varð fyrir á barnsaldri, en hún ólst upp í Hafnarfirði.

„Við stofnuðum vinnuhóp eftir að bókin hennar Thelmu kom út fyrir nokkrum árum,“ segir Geir Bjarnason, forvarnarfulltrúi Hafnafjarðar. „Frásögn hennar var reiðarslag og við sáum að samfélag eins og Hafnarfjörður ætti að geta gert hlutina miklu betur en kemur fram í bókinni. Þó að nokkuð sé síðan þeir atburðir gerðust, þá á þetta auðvitað enn erindi við okkur. Í hennar tilviki vissu allir að eitthvað væri í gangi, en enginn gerði neitt.“

Viljum gera allt til að fyrirbyggja svona mál

Geir segir að unnið hafi verið að ýmsum verkefnum í kjölfarið, námskeiðin séu einn afrakstur þeirrar vinnu.

„Við viljum gera allt sem við getum til að fyrirbyggja svona mál. Við á fjölskyldusviðinu ákváðum fyrir nokkrum árum, í samráði við bæjarstjórann, að gera samning við samtökin Blátt áfram um að þau myndu hjálpa okkur og taka okkar starfsmenn sem vinna með börnum á námskeið,“ segir Geir. „Við teljum að uppeldiskerfið okkar verið hæfara og betra fyrir vikið.“

Að sögn Geirs hafa á bilinu 800 - 900 bæjarstarfsmenn farið á þessi námskeið, en þau eru nokkuð mismunandi eftir eðli þeirra starfa sem fólk gegnir.

„Núna erum við búin með alla leikskólana, alla grunnskóla nema einn, allar félagsmiðstöðvarnar eru búnar en við eigum tónlistarskólana eftir. Svo erum við líka að vinna með íþróttahreyfingunni. Þau eru frjáls félagasamtök og ekki hægt að skikka þau til þessa, en stjórn ÍBH [Íþróttabandalags Hafnarfjarðar] hefur tekið vel í að íþróttaþjálfarar muni fara á námskeiðin. Það verður vonandi af því í ár.“

„Með þessu erum við í raun og veru að segja að allir sem vinna með börnum í Hafnarfirði hafi fengið fræðslu um forvarnir og hvernig hægt sé að bregðast við og vinna úr svona málum.“

Málin eru tilkynnt fyrr

Geir segir hugmyndafræði samtakanna Blátt áfram henta hugmyndum Hafnarfjarðarbæjar vel. „Þetta eru frjáls félagasamtök og við fundum ekki fyrir neinum vafasömum öfgum í eina eða neina átt.“

Hvernig er hægt að mæla árangur af svona vinnu? „Það er erfitt að mæla einhvern árangur á þessu sviði. Við höfum enga tölfræði til að styðjast við, en okkar tilfinning er að við fáum fleiri tilkynningar inn.  Annars segja vísbendingar okkur að við séum á réttri leið. Við komum kannski ekki í veg fyrir þennan skaðvald með námskeiðunum, en við erum að gera okkar fólk hæfara í að greina málin og tilkynna um þau fyrr, í staðinn fyrir að mál séu að velkjast um lengi.“

Fá mál hafa komið upp í skólakerfinu

Á námskeiðinu er líka fjallað um draga úr líkunum á því að þær aðstæður myndist á skólum að þar sé hægt að fara illa með börn. „Meðal þess sem er kennt er að búa til vafasamar aðstæður þar sem það er síður líklegt að starfsfólk skólanna eða aðrir misnoti börn. Að alltaf sé aðgengi að öðru starfsfólki, að börn séu ekki ein með starfsmanni inni í lokuðu rými,“ segir Geir.

Mbl.is fjallaði í gær um ráðstafanir sem gerðar eru í sumum leikskólum í Danmörku, þar sem karlkyns starfsmenn mega ekki vera einir með börnunum til að koma í veg fyrir að þeir verði sakaðir um kynferðislega áreitni að ósekju og þeim settar ýmsar skorður í störfum, t.d. mega þeir ekki skipta á börnunum eða hugga þau. Spyrja má í þessu sambandi; hvað eigum við að ganga langt? „Við ættum að minnsta kosti að forðast aðstæður þar sem eitt barn og einn starfsmaður eru inni í læstu herbergi. En sem betur fer hafa fá mál af þessu tagi komið upp í skólakerfinu hér í bæ,“ segir Geir.

Vilja ekki vera „sofandi samfélag“

Spurður að því hvort einhver fyrirmynd sé að samstarfi Hafnarfjarðarbæjar og Blátt áfram segir Geir svo ekki vera. „Ég held að ekkert sveitarfélag hér á landi hafi unnið svona vinnu. Þetta var okkar ákvörðun, okkar Hafnfirðinga. Við ákváðum að vera ekki sofandi samfélag. Þetta skelfilega mál hennar Thelmu verður vonandi til þess að bæta skilyrðin fyrir börn í Hafnarfirði.“

Geir Bjarnason, forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar.
Geir Bjarnason, forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert