5.5 milljóna kr. munur á árslaunum hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræðingar fá betri laun í Noregi.
Hjúkrunarfræðingar fá betri laun í Noregi. Árni Sæberg

Hjúkrunarfræðingar sem starfa í Noregi fá 5,5 milljónum króna meira í árslaun en þeir sem starfa á Íslandi. Áhugi meðal hjúkrunarfræðinga á að starfa í Noregi og fyrirspurnir þar um hafa aukist mjög, að sögn framkvæmdastjóra á ráðningarstofu sem sérhæfir sig í að útvega íslensku heilbrigðisstarfsfólki atvinnu erlendis. 

„Ég finn fyrir mikilli fjölgun fyrirspurna frá hjúkrunarfræðingum sem eru forvitnir um vinnu í Noregi. Þar er fullt af vinnu að fá,“ segir Rósa Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjá ráðningarskrifstofunni Sólstöðum, sem sérhæfir sig í að útvega heilbrigðisstarfsfólki afleysingastörf til lengri eða skemmri tíma hér á landi og erlendis.

150 mættu á fund

Sólstaðir eru eina íslenska fyrirtækið sem sendir íslenska hjúkrunarfræðinga utan. 19 hjúkrunarfræðingar fóru til Noregs á vegum Sólstaða árið 2011 en árið 2012 voru þeir 33. Rósa segist finna fyrir miklu meiri áhuga nú en áður. Tengja megi það við uppsagnir á Landspítalanum en 270 hjúkrunarfræðingar hafa sagt þar upp á undanförnum mánuðum. 

„Það mættu 150 hjúkrunarfræðingar á fund hjá okkur í nóvember þar sem það var kynnt hvernig við stöndum að þessu,“ segir Rósa.

Frítt flugfar og húsnæði 

Hún segir mikinn mun á kjörum hjúkrunarfræðinga á Íslandi og í Noregi. Sem dæmi má nefna að árslaun hjúkrunarfræðings eftir 10 ára í starf í Noregi eru að sögn Rósu um 10 milljónir íslenskra króna. Sambærileg laun á Íslandi eru um 4,5 milljónir á ári samkvæmt kjarakönnun hjúkrunarfræðinga frá árinu 2012.

Hér ber þó að taka fram að um daglaun er að ræða. Eins ber að huga að því að mikill gengismunur er á íslensku og norsku krónunni.   

„Fólk sem fer út fær yfirleitt frítt flugfar og húsnæði, en þarf sums staðar að halda sér uppi sjálft,“ segir Rósa.

Rósa Þorsteinsdóttir.
Rósa Þorsteinsdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert