„Ég tel þetta vera fráleita stefnu. Þetta er skoðanapistill sem lýtur öðrum lögmálum en almennar fréttir. Maður veltir fyrir sér hvað mönnum gengur til með þessu háttalagi og hvort verið sé að reyna að þagga niður eðlilega umræðu í samfélaginu,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um kæru Bakkavararbræðra á hendur fréttastjóra DV.
Þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir hafa stefnt Inga Frey Vilhjálmssyni, fréttastjóra á DV, vegna leiðaraskrifa hans um þá en þeir telja skrifin meiða æru sína og krefjast þess að fern ummæli verði dæmd dauð og ómerk.
Bræðurnir vísa meðal annars í ákvæði nýrra fjölmiðlalaga um hatursáróður. Þar segir að bannað sé að „kynda undir hatri í fjölmiðlum á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis, skoðana eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu“.
Hjálmar segir að ekki hafi áður verið kært á grundvelli þessa ákvæðis í fjölmiðlalögum sem sett voru árið 2011.
„Það er gríðarlega mikilvægt að svona umræða geti farið fram með eðlilegum hætti. Það sem er rangt dæmir sig sjálft en hitt lifir eftir. Þess vegna erum við með ákvæði um tjáningar-, skoðana- og prentfrelsi, því þetta er mikilvægt fyrir samfélagið. Ég er gáttaður á að verið sé að nota þetta ákvæði. Það er alvarlegt mál að saklaust fólk þurfi að verja sig af þessu,“ segir Hjálmar.
Spurður hvort tilgangurinn með kærunni gæti verið að fæla blaðamenn frá því að skrifa um umdeild mál af ótta við kostnað sem hljótist við málaferli segist Hjálmar ekki átta sig á hver tilgangurinn sé.
„Íslenskir dómstólar hafa dæmt kostnað á báða aðila jafnvel þó að sýknað sé. Það eru nýleg dæmi um það. Það á ekki að taka því með léttúð að lög séu misnotuð til þess að hindra tjáningarfrelsið. Ég trúi ekki öðru en að dómstólar standi vörð um það,“ segir Hjálmar sem segir jafnframt að það hvarfli ekki að sér að dómur falli Bakkavararbræðrum í vil í málinu.
Ingi Freyr vildi sjálfur ekki tjá sig um málið í dag þegar eftir því var leitað. Hann skrifaði hins vegar leiðara í DV þar sem hann fjallar um kæruna á hendur sér og blaðinu. Þar segir meðal annars:
„Rétt eins og fyrir hrun vilja Bakkabræður stýra þeirri umfjöllun sem birt er um þá í fjölmiðlum. Fyrst reyna þeir að kaupa einn af fjölmiðlunum sem fjallar einna mest um þá, meðal annars um ákæru sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni, en þegar það ber ekki árangur reyna þeir að stöðva umfjöllun fjölmiðilsins með stefnu á þeim grundvelli að um „hatursáróður“ sé að ræða; „hatursáróður“ sem byggist að langmestu leyti á opinberum upplýsingum um umsvif þeirra, til dæmis úr ársreikningum, rannsóknarskýrslu Alþingis og skýrslunni um lífeyrissjóðina sem út kom í fyrra.“