Handboltaveisla framundan: Ekkert HM í handbolta á RÚV

Róbert Gunnarsson með landsliðinu.
Róbert Gunnarsson með landsliðinu. Morgunblaðið/Golli

Leikirnir verða sýndir á Stöð 2 Sport og Rás 2 verður með ítarlega umfjöllun um mótið og lýsir öllum leikjum íslenska liðsins í beinni útsendingu. Nú situr hluti „stórustu þjóðar í heimi“ hnípinn fyrir framan svartan flatskjáinn sinn vegna þess að þeir vilja ekki, hafa ekki efni á eða tíma ekki að fjárfesta í útsendingu af HM af einkarekinni stöð.

Þeim finnst sjálfsagt að slík þjóðaríþrótt sé sýnd í almenningssjónvarpi.

40-60% áhorf

Það er eftir miklu að slægjast að fá leiki til útsendingar frá handboltastórmótum þar sem Íslendingar taka þátt. Samkvæmt tölum frá Guðna Rafni Gunnarssyni, sviðstjóra yfir fjölmiðlarannsóknum hjá Capacent, er áhorfið á stórmót oft í kringum 40-60%.

Það er þó misjafnt eftir því hvers eðlis mótið er og hversu langt íslenska liðið nær í keppninni hversu mikið áhorfið mælist.

En engan skyldi undra að keppt skuli um útsendingarrétt stórmóta, enda áhorfstölurnar háar.

Sunnudagsblað Morgunblaðsins kannaði hjá 365 hversu mikið kostar að sjá strákana okkar leika á HM í handbolta 2013.

Kristín Reynisdóttir, forstöðmaður áskrifta- og þjónustusviðs 365, segir HM sýnt á Stöð 2 Sport og mánuðinn kosta 6.985 kr. ef viðkomandi er ekki með neina aðra áskrift.

„Sé viðkomandi hins vegar með áskrift að Stöð 2, Sport 2 eða Fjölvarpinu fær hann 10-30% afslátt af HM-áskriftinni og kostar stöðin þá á verðbilinu 4.890 til 6.287 kr.“

Kristín segir að ekki þurfi að vera áskrifandi að Stöð 2 til að vera áskrifandi að HM. „Hægt er að velja hvort tekinn sé stakur mánuður eða haldið áfram í áskrift. Þá má geta þess að útsendingar frá leikjum í HM verða í HD-gæðum.“

Horfum saman á leikina

Þar sem almenningssjónvarp er skylda og þjóðin greiðir nú þegar sín gjöld til RÚV gegnum útvarpsgjald og fjárlög þykir mörgum súrt að þurfa að greiða viðbótarkostnað fyrir að sjá sjálft handboltalandsliðið (sem þjóðin greiðir einnig til í gegnum skatta) spila á stórmóti.

En burtséð frá kostnaði þá ætti enginn að þurfa að sleppa því alveg að njóta þess að horfa eða hlusta á útsendingar frá leikjum strákanna okkar. Þótt ekki allir geti nælt sér í áskrift er hægt að hópa sig saman og horfa, eins og margir gera á vinnustöðum. Flestir þekkja einhvern sem er með áskrift og þá er um að gera að horfa saman, það er líka miklu skemmtilegra. Hvetjum strákana áfram!

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert