„Menn eru komnir í lausnagírinn“

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ Rax / Ragnar Axelsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir jákvæðan tón í viðræðum ASÍ og SA um endurskoðun kjarasamninga. „Menn eru komnir í lausnagírinn og ætla að finna sameiginlegar leiðir,“ segir Gylfi.   

„Við höfum lagt það til að samningarnir verði teknir upp í lok nóvember í stað þess að það verði gert í desember. Desember er ekki hentugur mánuður til samningaviðræðna af praktískum ástæðum. Þess vegna vildum við færa þetta fram og stefna að því að ljúka kjarasamningum í byrjun desember,“ segir Gylfi. 

Aukin menntun mikilvæg

Hann segir næstu skref samninganefndar ASÍ að ræða við sína félagsmenn á mánudag. „Við töluðum líka um mikilvægi þess að efla getu okkar félagsmanna á menntasviðinu. Sem betur fer hafa margir sótt sér aukna menntun í þessu atvinnuleysi sem hefur hrjáð okkur. Við viljum vita það hvernig við getum sameiginlega boðið fólki og fyrirtækjum tækifæri á að sækja sér meiri menntun,“ segir Gylfi. 

Umræða um gjaldmiðilsmál skammarlega lítil

Gylfi segir jákvæðan tón í viðræðunum en hann hvetur jafnframt til umræðu um verðbólguna. „Eins þarf að taka umræður um verðbólguna og hvernig hægt er að koma í veg fyrir það að stofnanir og fyrirtæki að velti hækkunum endalaust út í verðlagið. Það hefur engin hagsmuni af því að verðbólgan ráði hér ríkjum. Við þurfum að koma í veg fyrir þetta ójafnvægi sem er í íslensku atvinnulífi. Því miður er gjaldmiðillinn okkar og sveiflur hans gerandi í eilífri verðbólgu sem hér er. Það er engin lausn að halda gjaldeyrishöftum hér um ókomna tíð. Því miður er umræða um þessi mál skammarlega lítil,“ segir Gylfi.   

Gylfi segir jákvæðan tón í viðræðum ASÍ og SA.
Gylfi segir jákvæðan tón í viðræðum ASÍ og SA. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert