„Íslensku fræðimennirnir eru í raun og veru að kasta ryki í augu fólks með því að halda því fram að hér séu heimsfrægir erlendir fræðimenn að viðra tiltekin sjónarmið. Þeir virðast gera ráð fyrir því að íslenskur almenningur lesi ekki skýrsluna nákvæmlega heldur taki orð þeirra um hana gild.
Þetta er ekki sérlega heiðarlegt. Það er leitt að þurfa að segja það,“ segir Indriði H. Indriðason, dósent í stjórnmálafræði við Kaliforníuháskóla, Riverside, í Morgunblaðinu í dag.
Tilefnið er þau ummæli Þorvaldar Gylfasonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, og Svans Kristjánssonar, prófessors í stjórnmálafræði við sama skóla, að þrír erlendir fræðimenn gefi meðmæli með stjórnlagafrumvarpi í umsögn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Svanur sagði fram kominn „gæðastimpil á þessa stjórnarskrá frá bestu fræðimönnum í heiminum“. Þorvaldur tók í sama streng og sagði erlenda fræðimenn „hafa lokið lofsorði á frumvarpið“.