Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 37,4% landsmanna. Landsmenn telja jafnframt að Sjálfstæðisflokkurinn sé best til þess fallin að hafa forystu í fjórtán af fimmtán málaflokkum sem spurt var um. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og vitnað í könnun MMR frá því í síðasta mánuði.
Aðeins þegar spurt var um umhverfismál breytist staðan en flestir telja að Vinstri grænir séu best til þess fallnir að fara með forystu í þeim málaflokki.
Samkvæmt könnuninni njóta stjórnarflokkarnir samanlagt stuðnings innan við þrjátíu prósent landsmanna. Alls sögðust 17,5% þeirra sem tóku afstöðu ætla styðja Samfylkinguna og 11,3% sögðust ætla að kjósa Vinstri græna.
Tæp fjórtán prósent sögðust ætla að kjósa Framsóknarflokkinn og 11,5% sögðust styðja Bjarta framtíð. Aðrir mældust með innan við fimm prósenta fylgi.