Fangelsi vegna formgalla

Karlmaður sem dæmdur var í 18 mánaða fangelsi í byrjun árs kann fyrrverandi verjanda sínum eflaust litlar þakkir, en sami maður var fyrir sama brot dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi í febrúar 2012. Formgalli leiddi til þess að Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað til löglegrar meðferðar.

Maðurinn sem er um sextugt var ákærður fyrir að hafa í tvö skipti haft kynferðismök við 14 ára pilt, meðal annars endaþarmsmök, án þess að gæta nægjanlegrar varúðar um aldur piltsins, og greiða honum 30 þúsund krónur fyrir kynmökin.

Málið var þingfest 15. nóvember 2011 í Héraðsdómi Vesturlands og í þinghaldi 8. desember sama ár játaði hann brot sitt en hafnaði bótakröfu. Var bótakröfunni vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli.

„Vel gefinn og vel gerður samkynhneigður maður“

Lagt var fram í málinu læknisvottorð geðlæknis og í því kom fram að um væri að ræða „vel gefinn og vel gerðan samkynhneigðan mann sem um árabil hafi lifað í felum með kynhneigð sína“ og að engin grunur leiki á að hann sé haldinn barnagirnd.

Jafnframt sagði í vottorðinu að maðurinn hefði freistast til að leita eftir samskiptum við aðra karlmenn í netheimum og hefði þetta orðið til þess að afhjúpa hann með miklum afleiðingum fyrir hann og fjölskyldu hans.

Maðurinn hefði tekið vel á málum sínum, farið í áfengismeðferð og stundað SLAA-fundi og AA-fundi auk þess að mæta í viðtöl hjá geðlækninum.

Héraðsdómarinn sem dæmdi málið taldi að hæfileg refsing væri tólf mánaða fangelsi „en með hliðsjón af skýlausri játningu ákærða, þeim afleiðingum sem brot ákærða hafa haft fyrir hann og því hvernig ákærði hefur unnið úr sínum málum þykir mega fresta fullnustu refsingarinnar“.

Aðilar mættu ekki til dómsuppkvaðningar

Ríkissaksóknari taldi refsinguna ekki nægilega þunga og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar er bent á að málið hafi verið dómtekið í héraðsdómi 8. desember 2011 og dómur kveðinn upp 9. febrúar 2012. Hafi því liðið lengri tími en fjórar vikur frá því málið var dómtekið þar til dómur var kveðinn upp.

Hæstiréttur vísaði því næst í 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. Þar segir: „Hafi dómur ekki verið kveðinn upp í máli sem var munnlega flutt innan fjögurra vikna frá því að það var dómtekið skal það flutt að nýju nema dómari og aðilar telji það óþarft.“

Því næst benti Hæstiréttur á að í endurriti vegna dómsuppkvaðningarinnar sé bókað að ekki hafi verið mætt af hálfu aðila.

Þá sagði Hæstiréttur: „Samkvæmt framansögðu lá ekki fyrir við uppkvaðningu dómsins að bókað væri að sakflytjendur og dómari málsins teldu að ekki væri þörf á endurflutningi þess. Vegna þessa verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.“

Öllum skipt út nema ákærða

Málið fór því aftur til Héraðsdóms Vesturlands en í millitíðinni skipti maðurinn um verjanda auk þess sem ríkissaksóknari skipti um saksóknara. Og í stað eins héraðsdómara var kominn fjölskipaður héraðsdómur.

Maðurinn játaði enn að hafa haft kynferðismök við piltinn í tvö skipti en í þetta skipti mótmælti hann því hins vegar að hafa átt endaþarmsmök við hann. Þá hafnaði hann enn bótakröfu.

Óþarfi er að rekja málið lið fyrir lið en þess má geta að geðlæknir mannsins, sá sem skilaði vottorði í fyrra málinu, kom fyrir dóminn sem vitni. Hann sagðist ekki telja að maðurinn væri haldinn barnagirnd og ekkert hefði komið fram annað en að maðurinn hefði talið piltinn eldri en hann í raun var.

Þá kvaðst geðlæknirinn ekki telja að maðurinn væri hættulegur eða líklegur til að brjóta gegn börnum í framtíðinni. Jafnframt sagði hann manninn vera að byggja upp tilveru sína á nýjan leik og væri hann í raun gjörbreyttur maður í dag, miðað við sem var þegar hann kom fyrst í viðtal.

Minni sakir en þyngri dómur

Í niðurstöðu dómsins frá 2. janúar 2012 segir að ekki sé komin fram lögfull sönnun þess að maðurinn hafi haft við piltinn endaþarmsmök og var hann því sýknaður af þeim þætti málsins. Hann var hins vegar sakfelldur fyrir að hafa í tvígang haft önnur kynferðismök við hann og að hafa greitt honum fyrir.

Þá segir að maðurinn hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart piltinum vegna aldursmunar og reynslu. Hann hafi brotið gróflega gegn honum og eigi sér ekki neinar málsbætur. Hæfileg refsing þyki 18 mánaða fangelsi. Svo segir: „Enda þótt ákærði hafi játað brot sín greiðlega frá upphafi rannsóknar og tekist á við áfengisvanda sinn og lagt sig fram um að leita lausna á vanda sínum, þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsingu hans þegar litið er til eðlis brota þeirra sem hann er sakfelldur fyrir.“

Manninum er að auki gert að greiða piltinum 600 þúsund krónur.

Þess ber að geta að alls óvíst er að Hæstiréttur hefði staðfest dóm Héraðsdóms Vesturlands frá 9. febrúar 2012. Eins og er enn ekki ljóst hvort dómnum frá 2. janúar 2012 verður áfrýjað til Hæstaréttar.

Hæstiréttur.
Hæstiréttur. mbl.is/GSH
mbl.is / Hjörtur J. Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert