Búast má við að framkvæmdir við tvær byggingar á háskólasvæðinu hefjist á árinu, Hús íslenskra fræða sem standa mun á reit við Þjóðarbókhlöðuna og byggingu fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum sem standa mun á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu.
Sótt hefur verið um byggingarleyfi fyrir Hús íslenskra fræða. Gert er ráð fyrir að verkið verði fljótlega boðið út, nú þegar fjárlög ársins 2013 hafa verið samþykkt, en í þeim var gert ráð fyrir 800 milljónum króna til byggingarinnar. Reikna má með að framkvæmdir hefjist síðar á þessu ári, að loknu útboðinu, segir í frétt á vef Háskóla Íslands.
Hús íslenskra fræða byggist á vinningstillögu Hornsteina arkitekta ehf. í hönnunarsamkeppni sem haldin var árið 2008. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild munu fá aðstöðu í húsinu en rætt hefur verið um í áratugi að byggja nýtt hús til að varðveita íslensku handritin. Húsið mun rísa á byggingarreit við Suðurgötu skammt frá Þjóðarbókhlöðu sem Háskóli Íslands lét í té. Það mun hafa sérstæða sporöskjulaga grunnmynd og útveggir verða skreyttir með handritatextum.
Áætlaður kostnaður við bygginguna er ríflega þrír milljarðar króna. Ríkið leggur til 70% fjárins en 30% koma frá Happdrætti Háskóla Íslands. Áætlað er að húsið verði tekið í notkun á vormánuðum árið 2016.
Alþjóðleg tungumálamiðstöð tilbúin á næsta ári
Áður hefur verið greint frá því að framkvæmdir við byggingu undir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hefjist á árinu. Úrslit hönnunarsamkeppni vegna hússins lágu fyrir á síðasta ári. Þar reyndist Arkitektastofan Arkitektúr.is hlutskörpust og hefur verið unnið að útfærslu tillögu stofunnar frá þeim tíma.
Í frétt á vef háskólans segir að markmiðið með byggingunni verður tvíþætt. Annars vegar að skapa aðstöðu fyrir starfsemi alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar sem mun starfa undir merkjum UNESCO og hins vegar að skapa fullkomna aðstöðu til kennslu, rannsókna og miðlunar þekkingar um tungumál og menningu til almennings og vísindasamfélagsins. Þá fá starfsmenn Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda inni í hinni nýju byggingu.
Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun á árinu 2014 og verður fyrsti áfangi byggingarinnar 3.000 fermetrar að stærð auk bílageymslu og tengingar við Háskólatorg.
Framkvæmdum á Háskólatorgi lýkur í vor
Auk þessara framkvæmda er reiknað með að stækkun Háskólatorgs sem hefur staðið yfir frá því sumarið 2012 verði lokið á vormánuðum. Sú framkvæmd er á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Hin nýja viðbygging mun hýsa nýjan Stúdentakjallara og þá verður torgið sjálft stækkað um tæpa 240 fermetra.
Stúdentakjallarinn verður kærkomin viðbót við háskólalífið. Gert er ráð fyrir að kjallarinn verði opinn frá morgni til kvölds alla daga vikunnar og verður þar aðstaða fyrir tónleika, fundi og annað félagslíf stúdenta, en staðurinn verður jafnframt veitingastaður og kaffihús á daginn.
Stækkun torgsins verður einnig tekið fagnandi enda er torgið vinsælt og oftast þétt setið. Þess má geta að haustið 2007, þegar torgið var opnað, voru tæplega tíu þúsund nemendur í Háskóla Íslands en þeir eru nú á fimmtánda þúsund.