Þegar hinn átján ára gamli Sveinbjörn Hávarsson kemur heim úr Verzlunarskóla Íslands á daginn sest hann við píanóið í stofunni og æfir sig drykklanga stund. Að því búnu stendur hann upp og heldur sem leið liggur á hnefaleikaæfingu. Hann viðurkennir að áhugamálin séu ólík og fólk biðji hann gjarnan að segja sér það tvisvar að hann sé í senn píanisti og hnefaleikari en þegar betur er að gáð eigi þetta glettilega vel saman.
„Hvort tveggja snýst um mýkt og hrynjandi,“ útskýrir Sveinbjörn. „Búi menn yfir hvorugu er betra fyrir þá að snúa sér að einhverju öðru. Hrynjandin skiptir vitaskuld höfuðmáli í tónlist en hún er ekki síður mikilvæg í hnefaleikunum, ekkert er betra en að láta andstæðinginn ganga inn í höggið. Mýktin skiptir líka öllu máli, það þýðir ekkert að sitja eða standa eins og drumbur og lemja út í loftið, hvorki fyrir píanista né hnefaleikara. Það segir sig sjálft. Þetta er því meira ímyndarmunur en eðlismunur.“
Spurður hvort hann sé ekki logandi hræddur um fingurna í hringnum svarar Sveinbjörn neitandi. „Ég hef ekki ennþá lent í fingurmeiðslum. Ég reyni bara að vefja hendurnar vel og kýla rétt.“
Sveinbjörn byrjaði sjö ára að læra á blásturshljóðfæri og var um tíma í lúðrasveit. Um ellefu ára aldurinn sneri hann sér að gítarnum en hætti formlegu námi fjórum árum síðar. Grípur þó reglulega í þann sexstrengda sér til ánægju og yndisauka. Það var svo fyrir fáeinum árum að forláta píanó kom óvænt inn á heimilið. Það var í eigu frænku Sveinbjörns, Brynju heitinnar Benediktsdóttur leikstjóra og eiginmanns hennar, Erlings Gíslasonar leikara. Höfðu þau ekki lengur not fyrir gripinn og gáfu fjölskyldu Sveinbjörns það. Um er að ræða eðalgrip af gerðinni Jensen & Nielsen frá aldamótunum 1900 sem gefur ennþá frá sér prýðilegan hljóm. Æskilegt mun þó vera að stilla það tvisvar á ári.
„Fyrst píanóið var komið hingað heim í stofu langaði mig að læra á það,“ segir Sveinbjörn og sest við hljóðfærið. Leikur lagstúf meðan Ragnar Axelsson smellir af honum myndum. Paradise með Coldplay verður fyrir valinu. Spurður um áhugasviðið segir Sveinbjörn það víðfeðmt. „Ég vissi ekki mikið um klassíska tónlist áður en ég byrjaði formlega að læra á píanó sumarið 2011 en hef verið að kynna mér hana síðan. Dægurtónlistin höfðar þó meira til mín.“
Kennari Sveinbjörns er María Hlinadóttir og sækir hann tíma hjá henni einu sinni í viku. „Það er mjög skemmtilegt að læra og spila á píanó og ég reikna fastlega með að halda því áfram.“
Spurður hvort hann sé farinn að semja sjálfur, svarar Sveinbjörn neitandi, alltént ekki ennþá. Hann er ekki í hljómsveit en „djammar“ stundum með vinum sínum sem leika á hin ýmsu hljóðfæri. Engin áform eru um að stofna hljómsveit en Sveinbjörn viðurkennir að hann hefði ekkert á móti því að prófa það við tækifæri.
Sveinbjörn æfði karate þegar hann var yngri og fékk snemma áhuga á bardagaíþróttum. Það var svo fyrir tveimur árum að hann ákvað að byrja að æfa hnefaleika fyrir alvöru hjá Hnefaleikastöðinni undir stjórn Vilhjálms Hernandez. Hann æfir að jafnaði þrisvar í viku en fyrir mót er æfingunum fjölgað upp í sex. Sveinbjörn byrjaði að taka þátt í svokölluðum diploma-keppnum en þar er ekki fullur höggkraftur og keppendur fá fyrst og fremst stig fyrir stíl. Fyrir um ári tók hann þátt í sínu fyrsta móti í ólympískum hnefaleikum. „Ég hef unnið tvo bardaga af þremur hér heima fram að þessu,“ segir hann.
Síðastliðið haust lagði Sveinbjörn leið sína til Svíþjóðar til keppni á alþjóðlegu móti. Þar gekk honum vonum framar, var aðeins einu stigi frá gullverðlaunum í sínum flokki. „Ég vissi ekki hvort ég átti að vera svekktur eða ánægður með þann árangur.“
Nítján Íslendingar tóku þátt í téðu móti, þar af tvær stúlkur. „Það er töluverð gróska í íþróttinni.“ Framundan er landskeppni við Færeyinga og Dani í febrúar og Íslandsmótið í vor.
Spurður hvað sé svona skemmtilegt við hnefaleika vefst Sveinbirni tunga um tönn. „Ég á alltaf jafnerfitt með að svara þessu. Ætli þetta snúist ekki um að vera í góðu formi, auk þess sem hnefaleikar eru krefjandi og erfið íþrótt sem kallar á mikla tækni. Keppnin er líka þáttur í þessu, það er skemmtilegra að taka þátt í bardaga en að vera í ræktinni.“
Spurður hvort hann lyfti ekki eins og berserkur hristir Sveinbjörn höfuðið. „Ég var í lyftingum, hélt að það hjálpaði til, en svo ráðlagði þjálfarinn mér frá því að lyfta lóðum. Hnefaleikar snúast ekki um afl, heldur tækni. Maður þarf að læra að nota líkamann í höggið.“
Sveinbjörn segir alvarleg meiðsli sjaldgæf í ólympískum hnefaleikum enda sé fyllsta öryggis gætt. „Loturnar eru bara þrjár og ég held að innan við eitt prósent bardaga ljúki með rothöggi. Það eru miklu meiri líkur á því að meiða sig illa í fótbolta en hnefaleikum.“
Þegar gengið er á Sveinbjörn viðurkennir hann þó að hafa fengið stöku glóðarauga. „Það er ekkert stórmál en getur þó verið svolítið vandræðalegt þar sem ég vinn á kassa í Krónunni með skólanum. „Jæja vinur, var mikið fjör um helgina?“ spyrja kúnnarnir með bros á vör.“
Hann hlær.
Auk píanó- og hnefaleikaæfinga hleypur Sveinbjörn úti þrisvar í viku ásamt föður sínum. Spurður hvernig það fari með hnefaleikunum segir Sveinbjörn þjálfarann sinn ekki vilja að hann hlaupi lengur en hálftíma í senn. Það er þó hægara sagt en gert. „Pabba finnst ekki taka því að fara af stað fyrir hálftíma. Hann hleypur alltaf töluvert lengur – og yfirleitt lengur en planað var,“ segir hann með bros á vör.
Faðir hans, Hávar Sigurjónsson, leikritaskáld og blaðamaður, er mikill hlaupagikkur. Feðgarnir hlupu saman hálfmaraþon sumarið 2011 og Sveinbjörn dreymir um að feta í fótspor föður síns og taka þátt í Járnkarls-keppni við tækifæri.
Ekki nóg með það, Sveinbjörn var að byrja í crossfit í vikunni og hefur áform um að sækja þær æfingar þrjá morgna í viku. Það þýðir að fastar líkamsræktaræfingar hjá honum eru orðnar níu í viku. Spurður hvort það sé ekki heldur mikið kinkar hann kolli, eftir stutta umhugsun. „Jú, mögulega fækka ég æfingunum niður í átta.“
Það er í mörg horn að líta hjá Sveinbirni Hávarssyni og velta má fyrir sér hvort hann hafi yfirhöfuð einhvern tíma fyrir verslunarskólanámið. „Já, skólinn hefur alltaf forgang, ég er á eðlisfræðibraut og gengur vel,“ svarar hann ákveðinn. „Þetta er bara spurning um forgangsröðun og skipulag.“
Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér en Sveinbjörn á von á því að akademían verði hnefaleikunum yfirsterkari hjá honum. „Ég stefni ekki að því að verða atvinnuhnefaleikari. Eins og staðan er núna stendur hugur minn annað hvort til náms í verkfræði eða læknisfræði. Ég á samt örugglega eftir að stunda líkamsrækt af einhverju tagi áfram og spila á píanóið meðan ég get. Ég reikna ekki með því að vinna fyrir mér sem píanóleikari í framtíðinni en maður veit þó aldrei. Sjáðu bara Diktu, hámenntaða menn í einni vinsælustu hljómsveit landsins.“