Vonda veðrið og myrkrið laðar að

Vonda veðrið freistar sumra.
Vonda veðrið freistar sumra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Erlendir gestir eru í auknum mæli farnir að sækja Ísland heim utan sumarmánaða. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að myrkur og vont veður séu aðlaðandi í hugum sumra og það geti ferðaþjónustan nýtt sér yfir vetrarmánuðina.

Sumir búa við gott veður allt árið

„Sumir búa við gott veður allt árið og margir eru að leitast eftir upplifun. Flestir vilja upplifun sem ekki er eins og þar sem þeir búa. Þannig er vonda veðrið á veturna orðið markaðsvara fyrir okkur. Svo eru sumir í því að markaðssetja myrkrið en það þarf svo norðurljósanna verði notið sem best,“ segir Erna. 

Hún segir að veturinn nú sé sá annar í röð þar sem vonda veðrið og myrkrið eru beinlínis nýtt sem markaðsvara. Tekist hefur að fjölga ferðamönnum með þessum hætti. „Við þurfum ekki stóran hluta ferðamanna til að halda uppi ferðaþjónustunni á veturna og þetta þokast í rétta átt,“ segir Erna.  

Ráðstefnur í Reykjavík

Betur hefur gengið að fá fólk til Reykjavíkur á veturna en út á land. „Í Reykjavík hefur tekist með mikilli vinnu í mörg ár að jafna árstíðasveiflurnar en úti á landi hefur ekki tekist að jafna þetta eins út,“ segir Erna.
 
„Til Reykjavíkur koma margir á fundi og ráðstefnur. Þeir sem fara út á land koma í norðurljósaferðir, jeppaferðir og í vetraríþróttir auk þess að skoða þekkta ferðamannastaði eins og Gullfoss og Geysi. Það hefur t.a.m. verið mikil traffík á Suðurlandinu og austur á Höfn í vetur,“ segir Erna. 

Gistinóttum á hótelum í nóvember árið 2012 fjölgaði um 48% frá árinu 2011.

Erna Hauksdóttir.
Erna Hauksdóttir. Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert