Ekki ákvörðun korteri fyrir kosningar

Frá fundi í utanríkismálanefnd Alþingis í dag.
Frá fundi í utanríkismálanefnd Alþingis í dag. mbl.is/Kristinn

Ákvörðun um að hægja á samningaferlinu við Evrópusambandið felur í sér að það verða engar ákvarðanir teknar korteri fyrir kosningar og að ný ríkisstjórn mun fá tækifæri til að setja mark sitt á samningsafstöðu í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á opnum fundi utanríkismálanefndar í dag.

„Við erum að segja að við gerum ekki ráð fyrir því að taka nokkrar stórpólitískar ákvarðanir korteri fyrir kosningar. Það væri ólýðræðislegt og ekki í samræmi við það vandaða ferli sem hefur reynst okkur svo vel. Sú ríkisstjórn sem tekur við eftir kosningar fær þá líka tækifæri til þess að setja mark sitt á þessa samningsafstöðu. Þarna er um að ræða lykilafstöðu í tveimur mjög mikilvægum málaflokkum,“ sagði Össur og átti þar við sjávarútvegsmálin og landbúnaðarmálin.

Össur sagði á fundinum að þessi ákvörðun, að hægja á samningaferlinu, ætti ekki að þurfa að koma á óvart. Hann sagðist á sínum tíma hafa sagt að það kynni að vera skynsamlegt að hægja á vinnunni þegar dragi að kosningum. Hann sagðist, sem stuðningsmaður aðildar, telja að það þjónaði best hagsmunum Íslands að gera það. Mikilvægt væri að það væru ekki deilur um samningaferlið í miðri kosningabaráttunni og eins væri óskynsamlegt að setja alþingsmenn í þá stöðu að vera að móta samningsafstöðu í mikilvægum málum skömmu fyrir kosningar.

Ekki ætti heldur að taka stórar ákvarðanir um rammaáætlun og stjórnarskrá

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að ef það væri skoðun ríkisstjórnarinnar að stjórnvöld ættu ekki að vera taka stórpólitískar ákvarðanir korteri fyrir kosningar hlyti það sama að eiga við um stór og umdeild mál eins og rammaáætlun og stjórnarskrárfrumvarpið.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði legið fyrir í fjögur ár að það yrðu kosningar vorið 2013. Hún rifjaði einnig upp á fundinum svar sem Össur gaf við fyrirspurn í Alþingi í vetur þegar hann var spurður um hvenær samningsafstaða Íslands í sjávarútvegsmálum lægi fyrir. Þá sagði Össur: „Í öllu falli mun þjóðin sjá samningsafstöðu Íslands í tíma til að geta tekið afstöðu til þeirra sem þar fara höndum um fyrir kosningar.“

Ragnheiður Elín sagði að á þessum tíma hefði Össur verið þeirrar skoðunar að það væri lýðræðislegt að kjósendur fengju að sjá þessa afstöðu fyrir kosningar en nú virtist hann vera þeirrar skoðunar að það væri lýðræðislegt að gera það ekki.

Tafir í landbúnaðarmálum „heima tilbúinn vandi“

Össur sagði að hann hefði gjarnan viljað að menn væru komnir lengra í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Ástæðan fyrir því að landbúnaðarmálin hefðu tafist væri „heima tilbúinn vandi“, en hann kenndi ESB um tafir í sjávarútvegsmálum. Hann tók sérstaklega fram að hann hefði ekki gert neitt samkomulag við ESB um að geyma sjávarútvegsmálin, þvert á móti hefði hann viljað hraða þeim málum. Ástæðan fyrir töfunum í sjávarútvegsmálum væri annars vegar endurskoðun á stefnu ESB í sjávarútvegsmálum og hins vegar makríldeilan. Þó ESB vildi ekki tengja makrílinn við aðildarviðræðurnar þá væri það svo í reynd, að sumar þjóðir væru okkar reiðar vegna makrílveiðanna og það skipti máli.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki sjá að endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB ætti að tefja. Menn hlytu að semja á grunni þeirrar stefnu sem væri í gildi hverju sinni. Hann spurði hvort ríkisstjórnin treysti sér ekki til að setja niður á blað hvað hún vildi í sjávarútvegsmálum. Hann sagði að ástæður þeirrar ákvörðunar sem ríkisstjórnin tók í dag væru óskýrar.

Össur svaraði því til að mótun samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum væri langt komin. Þessi vinna hefði verið kynnt í utanríkismálanefnd fyrir hálfu ári og fengið þar ágætar viðtökur.

Árni Páll Árnason, starfandi formaður utanríkismálanefndar, sagði skýrt að samningsferlið við ESB héldi áfram og nú lægi fyrir hvaða verklag yrði viðhaft fram að kosningum að hálfu framkvæmdavaldsins. Viðræður yrðu í hægagangi fram að kosningum, en færu síðan af stað aftur strax eftir kosningar nema að ný ríkisstjórn tæki ákvörðun um annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert