Inngreitt eiginfjárframlag Íslands í stöðugleikasjóði evruríkjanna (ESM) yrði 80 milljónir evra, eða ríflega 13 milljarðar kr. á núverandi gengi, væri Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu. Gera má ráð fyrir hlutur Íslands í ESM yrði um 0,1% af heild.
Þetta kemur fram í svari Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra við fyrirspurnum Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um björgunarsjóð ESB.
Ráðherra tekur fram í svarinu hér að væri um einskiptisframlag að ræða sem skráð yrði sem eign ríkissjóðs en ekki sem kostnaður í fjárlögum. Meginhluti framlagsins yrði hins vegar í formi ábyrgða á lánveitingum sem evruríkin ábyrgjast í hlutfalli við eignarhlut þeirra.
Fyrri fyrirspurn Vigdísar er svo hljóðandi:
„Hver hefði hlutur Íslands verið í íslenskum krónum talið í 1.000 milljarða evra björgunarsjóði Evrópusambandsins væri Ísland orðið aðili að sambandinu?“
Í svari ráðherra segir, að hinn 8. október 2012 hafi fjármálaráðherrar evruríkjanna kynnt stofnun Evrópska stöðugleikakerfisins (e. European Stability Mechanism, ESM), öðru nafni stöðugleikasjóður evruríkjanna.
Fram kemur, að hlutverk ESM sé að stuðla að stöðugleika á evrusvæðinu með því að veita fjárhagsaðstoð til evruríkja sem eiga við efnahagsvanda að etja. Muni Evrópska stöðugleikakerfið taka við hlutverki Evrópska fjármálastöðugleikasjóðsins (e. European Financial Stability Facility, EFSF) og Evrópska viðbragðasjóðsins fyrir fjármálastöðugleika (e. European Financial Stabilisation Mechanism, EFSM).
Þá segir, að einungis evruríkin 17 séu aðilar að ESM en ekki öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins (ESB). Hlutur evruríkjanna í ESM sé reiknaður út frá mannfjölda og landsframleiðslu viðkomandi ríkja á sama hátt og eignarhlutur þeirra í Evrópska seðlabankanum.
„Ef Íslendingar samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga í Evrópusambandið og efnahagslegur stöðugleiki næst til langs tíma með þátttöku í gengissamstarfi Evrópu, ERM II, þannig að evran verði tekin upp sem gjaldmiðill má gera ráð fyrir að hlutur Íslands í ESM yrði um 0,1% af heild. Þar sem krónan hefði á þeim tíma verið aflögð hér á landi og evra tekin upp í staðinn, yrðu greiðslur Íslands í sjóðinn í evrum en ekki íslenskum krónum. Inngreitt eiginfjárframlag Íslands yrði þá 80 millj. evra, eða ríflega 13 milljarðar kr. á núverandi gengi. Hér væri um einskiptisframlag að ræða sem skráð yrði sem eign ríkissjóðs en ekki sem kostnaður í fjárlögum. Meginhluti framlagsins yrði hins vegar í formi ábyrgða á lánveitingum sem evruríkin ábyrgjast í hlutfalli við eignarhlut þeirra,“ segir svo í svarinu.
Seinni fyrirspurn Vigdísar er svohljóðandi:
„Hvernig er/verður framlag í björgunarsjóðinn reiknað út gangi Ísland í Evrópusambandið?“
Fram kemur í svari ráðherra, að samkvæmt því sem að ofan greini, að því gefnu að Ísland taki upp evru í framhaldi af aðild að Evrópusambandinu, megi gera ráð fyrir að hlutur Íslands í Evrópska stöðugleikakerfinu yrði 0,1% af eigin fé þess.