Tillaga um að Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, yrði tekinn úr utanríkismálanefnd Alþingis var lögð fram og samþykkt á þingflokksfundi VG í dag. Í stað Jóns kemur Þuríður Backmann. Jón verður í engum nefndum það sem eftir lifir kjörtímabilinu.
Þetta staðfestir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, í samtali við mbl.is. Þetta sé ein af þeim breytingum sem gerðar verði á nefndum í kjölfar þess að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, hafi hætt á þingi um áramótin. Árni tekur sjálfur sæti í efnahags- og viðskiptanefnd í stað Jóns.
Eins og mbl.is hefur fjallað um var Jón einn af flutningsmönnum tillögu í utanríkismálanefnd fyrir jól um að hlé yrði gert á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið og þær ekki hafnar aftur nema með samþykki í þjóðaratkvæði. Myndaði hann þar meirihluta í nefndinni með fulltrúum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.
Taka á tillöguna til efnislegrar umfjöllunar á fundi nefndarinnar á morgun samkvæmt heimildum mbl.is en stuðningi Jóns við hana var illa tekið af forystumönnum VG. Þannig sagði Árni Þór á Alþingi 18. desember síðastliðinn að Jón hefði ákveðið að ganga til liðs við framsóknarmenn og sjálfstæðismenn án þess að bera það fyrst undir þingflokk VG þvert á reglur.