Jón útilokar ekki að fara úr VG

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. Sigurður Bogi Sævarsson

„Við sjáum til með það. Ég er fyrst og fremst að horfa til þess hvernig málstaðurinn fær best brautargengi,“ sagði Jón Bjarnason, þingmaður VG, aðspurður hvort hann ætli að sitja á þingi fram að alþingiskosningum í vor, í ljósi atburða dagsins.

Sem kunnugt er var Jón settur úr utanríkismálanefnd jafnframt því sem hann var tekinn úr efnahags- og skattanefnd. Kom Þuríður Backman í hans stað í utanríkismálanefnd. Jón sækist ekki eftir endurkjöri í alþingiskosningunum í vor, að minnsta kosti ekki fyrir VG. Var ákvörðun um að Jón viki sæti úr nefndunum tekin á þingflokksfundi VG í dag.

Skýrir brottvikninguna

Jón telur einsýnt að andstaða hans við aðild að ESB hafi orðið þess valdandi að honum var „úthýst“ úr utanríkismálanefnd.

„Það er ljóst að afstaða mín í Evrópusambandsmálunum ræður því að þingflokkurinn vill úthýsa mér úr utanríkismálanefnd en þar eru þessi mál til meðferðar og þar hef ég verið flutningsmaður að tillögu um að gera fullkomið hlé á þessum viðræðum og að þær fari ekki í gang aftur fyrr en þjóðin hefur þá samþykkt það í þjóðaratkvæðagreiðslu að sækja um aðild – og að með því hættum við þessum skollaleik sem nú er í gangi. Ég tel reyndar að þessi tillaga sé í fullu samræmi við stefnu míns flokks, sem var jú stofnaður til þess að berjast gegn umsókn og aðild að Evrópusambandinu.“

- Áttu lengur samleið með VG?

„Þingflokkurinn er greinilega á annarri skoðun í Evrópusambandsmálum en ég. Það er alveg augljóst.“

- Áttu þá lengur heima í VG?

„Ég fylgi grunngildum VG og því sem ég var kosinn til og því sem lofaði kjósendum og við það hef ég staðið. Ég hef verið sjálfum mér samkvæmur í þessum efnum og það er ljóst að fyrrverandi félagar í VG og meirihluti þjóðarinnar vilja berjast áfram gegn þessari umsókn.“

Sér til hvort hann sitji út þingið

 - Ætlarðu að sitja á þingi fyrir VG fram að kosningum?

„Við sjáum til með það. Ég er fyrst og fremst að horfa til þess hvernig málstaðurinn fær best brautargengi. Ég hef lagt mig allan fram og tel mig vera að fylgja stefnu flokksins. Núna er greinilega, með yfirlýsingunni sem kom frá ríkisstjórninni, verið að undirbúa að hægja á ferlinu fram yfir kosningar upp á það að geta síðan haldið áfram, fái þessir flokkar stöðu til. Ég óttast það.“

- Þú útilokar þá ekki að gerast óháður þingmaður?

„Við skulum ekki fara fram úr okkur í þessum efnum. Þetta er bara það sem hefur gerst í dag. Allir þekkja mínar skoðanir hvað þetta varðar þannig að það er ekkert óvænt í þeim efnum. Allir vita að ég mun leggja þeirri baráttu lið á allan hátt sem ég get.“

- Telurðu að útspil ríkisstjórnarinnar í morgun sé sýndarmennska?

„Þótt ýmsir telji að hún sé spor í rétt átt er tillagan hjá ríkisstjórninni á engan hátt fullnægjandi fyrir kjósendur VG, sem eru mótfallnir þessari umsókn og geta ekki hugsað sér að hún fari svona opin inn í næsta kjörtímabil eins og þarna er lagt til. Það er algjörlega ófullnægjandi. Undirlægjuhátturinn gagnvart Samfylkingu í þessum efnum gengur að mínu mati alltof, alltof langt hvað Evrópusambandsumsóknina varðar,“ segir Jón Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert