Jóni Bjarnasyni, þingmanni VG, var í dag boðið að taka sæti í tveimur nefndum og hugsanlega að taka að sér formennsku í annarri. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í Kastljósi í kvöld. Jón hafnaði þessu.
Þingflokkur VG ákvað í dag að kjósa Þuríði Backman í utanríkismálanefnd í stað Jóns Bjarnasonar.
Steingrímur sagði að eftir að það lá fyrir að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir myndi hætta á þingi hefði þingflokkurinn þurft að gera breytingar á skipan manna í nefndum.
„En auðvitað er það líka rétt og ég ætla ekkert að draga fjöður yfir það, að sú staðreynd að Jón Bjarnason studdi ekki stjórnarfrumvarpið [þ.e. fjárlagafrumvarpið] var ekki gott innlegg í andrúmsloftið og trúnaðinn í samskiptum okkar í þingflokknum við hann. Það er afar óvenjulegt að stjórnarþingmenn styðji ekki svona grundvallarmál ríkisstjórnar eins og fjárlögin eru.“
Steingrímur sagði að það hefði líka skipt máli „að hann var í þann veginn að mynda meirihluta með stjórnarandstöðunni í utanríkismálanefnd án þess að hafa rætt það í þingflokknum og kynnt það fyrir félögum sínum.“
Steingrímur sagði þessa ákvörðun ekkert hafa að gera með efnisatriði málsins. Skoðanir Jóns á ESB-aðild væru öllum kunnar og það væri enginn að fara fram á að hann skipti um skoðun í því máli.