„Mjög var geipað um það í upphafi að strax yrði ráðist í erfiðustu kaflana, svo sem um landbúnaðar og sjávarútvegsmál. Nú við lok kjörtímabilsins eru engar viðræður hafnar um þau mál.“
Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag en samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í vor í ljósi þess að ekki reyndist mögulegt að klára viðræðurnar á kjörtímabilinu eins og til stóð.
„Þetta breytir hins vegar engu um heildarmyndina. Viðræðurnar halda áfram. Eini munurinn er sá að í stað þess að haldið verði áfram í fimmta gír, verður ekið áleiðis í þriðja gírnum. Það er munurinn,“ segir Einar og segir alla sjá í gegnum málið.
„VG er komið að fótum fram og Samfylkingin hefur stundarhagsmuni af því að rugga ekki sínum pólitíska báti. En það er eins með þetta eins og það sem ég lærði í kristnifræðinni á sínum tíma í Bolungarvík; það er of seint að iðrast eftir dauðann,“ segir hann ennfremur.
Heimasíða Einars K. Guðfinnssonar