„Öllu skiptir að ferlið er í fullum gangi“

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að það þyrfti að taka einhverja ákvörðun um vinnuhraðann og verklagið í aðdraganda kosninganna. Það er auðvitað mjög erfitt í aðdraganda kosninga að vera að marka nýja samningsafstöðu og taka nýjar ákvarðanir,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í vor í ljósi þess að ekki reyndist mögulegt að klára viðræðurnar á kjörtímabilinu eins og til stóð.

„Það er auðvitað líka eðlilegt út frá lýðræðislegum grundvallarsjónarmiðum að nýr þingmeirihluti geti komið að málum í stærstu málaflokkum fyrst að ekki var búiðað ljúka við mótun samningsafstöðu í landbúnaði og sjávarútvegi. Þannig að ég held að þetta sé eðlilegt verklag,“ segir Árni.

„Öllu skiptir að ferlið er í fullum gangi og það er ekki búið að stöðva það. Það er þá sjálfstæð ákvörðun á nýju þingi hvort menn vilja slökkva á ljósunum eða ekki,“ segir hann ennfremur og bætir við að hann hafi enga trú á því að ný ríkisstjórn muni taka þá ákvörðun að hætta viðræðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert