Þingsályktunartillaga þar sem fjallað er um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlunin svonefnda, var samþykkt á Alþingi í dag með 36 atkvæðum gegn 21.
Áður voru breytingartillögur frá stjórnarandstæðingum við tillöguna felldar í atkvæðagreiðslum.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við atkvæðagreiðsluna, að samþykkt tillögunnar væru merk tímamót sem samfylkingarfólk væri stolt af. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuráðherra, tók undir að um væri að ræða merk tímamót þar sem verðmætar náttúruperlur, sem áform hefðu verið lengi um að virkja, væru nú fluttar í verndarflokk.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að um væri að ræða pólitíska niðurstöðu. Sett hefði verið í lög að byggja ætti niðurstöðu um virkjun og verndun landsvæða á faglegum forsendum en í því máli eins og flestum öðrum, hefði ríkisstjórnin valið að láta af atkvæða ráða niðurstöðunni. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði niðurstöðuna dapurlega. Gleðilegt væri að vísu að margar náttúruperlur hefðu verið settar í verndarflokk en nú hefði ferlið endað með rammpólitískri niðurstöðu ríkisstjórnarinnar en ekki þeirri víðtæku sátt, sem upphaflega var lagt upp með að ná. Afleiðingin yrði áframhaldandi stöðnun í atvinnulífinu.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að aldrei hefði verið hægt að ná sátt um virkjunar- og verndarkosti því sumir þingmenn gætu ekki hugsað sér að vernda náttúrusvæði. Í framhaldinu yrði nú virkjað af meiri varúð en áður.
Harðar deilur voru um þingsályktunartillöguna á Alþingi fyrir jól og gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar harðlega, að ekki skyldi farið eftir niðurstöðum nefndar sem undirbjó tillögur um flokkun virkjunarkosta. Varð á endanum samkomulag um að fresta atkvæðagreiðslu um tillöguna þar til í dag.