Reiðubúnir að halda málinu áfram

Jón Bjarnason, alþingismaður.
Jón Bjarnason, alþingismaður. mbl.is/Árni Sæberg

„Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar þýðir auðvitað einfaldlega það að ef þessir tveir flokkar geta haldið stjórnarsamstarfi sínu áfram eftir kosningarnar í vor séu þeir reiðubúnir til þess að halda viðræðunum áfram,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og vísar þar til ríkisstjórnarflokkanna Samfylkingarinnar og VG.

Eins og mbl.is hefur fjallað um samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í vor í ljósi þess að ekki reyndist mögulegt að klára viðræðurnar á kjörtímabilinu eins og til stóð. Í minnisblaði sem samþykkt var á fundinum segir að nú sé ljóst að viðræðunum ljúki ekki á kjörtímabilinu og að tafir hafi orðið því valdandi.

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður og formaður Bjartrar framtíðar segist ekki telja að um mikil tíðindi sé í raun að ræða en flokkur hans hefur þá stefnu að halda eigi viðræðunum við Evrópusambandið áfram og ljúka þeim.

„Mér þykja þetta engin stórbrotin tíðindi. Það á að halda viðræðunum áfram, það eru sextán kaflar opnir og það á að klára þá. Það eina sem gerist er að það á ekki að opna sjávarútvegmálin og landbúnaðarmálin og einhverja einn, tvo kafla til viðbótar fyrir kosningar,“ segir Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður og formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is.

Hann leggur áherslu á að ekki sé verið að hætta viðræðunum eða gera hlé á þeim. Slík ákvörðun myndi hins vegar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir viðræðuferlið. Það þýddi að leysa þyrfti upp viðræðunefndina og þekking og tengsl sem aflað hefði verið gætu glatast. Það sé hins vegar ekki verið að gera slíkt hlé og því hafi þetta út af fyrir sig enga stórbrotna þýðingu.

„Það er ekki verið að gera hlé á viðræðunum. Þær eru á blússandi siglingu, hafa verið það og ganga vel. Það eru þarna þessir sextán kaflar sem verður haldið áfram að ræða,“ segir Guðmundur ennfremur og bætir við að hann hafi skilning á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin séu geymd fram yfir kosningar og nýju þingið veitt færi á því að fjalla um málið.

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður.
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka