Viðurkennt að málið sé í ógöngum

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Ríkisstjórnarflokkarnir eru að átta sig á því að þessar viðræður við Evrópusambandið eru í algerum ógöngum eins og við höfum höfum bent á lengi. Við eigum auðvitað bara að gera hlé á þessum viðræðum strax og leyfa þjóðinni að skera úr um það hvort halda eigi þessu áfram eða ekki,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis, í samtali við mbl.is.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í vor ekki síst í ljósi þess að ekki reyndist mögulegt að klára viðræðurnar á kjörtímabilinu eins og til stóð. Í minnisblaði sem samþykkt var á fundinum segir að nú sé ljóst að viðræðunum ljúki ekki á kjörtímabilinu og að tafir hafi orðið því valdandi.

Ragnheiður segir um dæmigerð vinnubrögð að ræða fyrir ríkisstjórnina þar sem skrefið sé ekki stigið til fulls heldur náð málamiðlun sem sé hvorki fugl né fiskur. Hún minnir á að tillaga liggi fyrir í utanríkismálanefnd um að gert verði hlé á viðræðunum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema fyrir liggi samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég treysti því að þeir þingmenn vinstri-grænna sem eru andvígir viðræðunum við Evrópusambandið styðji þá tillögu með okkur.“

Ragnheiður segir ennfremur að útspil ríkisstjórnarinnar feli í sér viðurkenningu á því að umsóknarferlið hafi tekið lengri tíma en upphaflega hafi verið stefnt að. „Með þessu er auðvitað verið að viðurkenna það sem við höfum bent á að þessar viðræður eru komnar langt út fyrir þau tímamörk sem menn settu sér í upphafi. Síðan hefur áætlunum stöðugt verið breytt og því haldið fram að málið væri á áætlun. En það er auðvitað jákvætt að ríkisstjórnin gangist loksins við þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert