„Við töldum okkur hafa leyfi frá Reykjavíkurborg til að fara í malbikunina og vorum með leyfi frá 2007 til framkvæmda. Við fórum af stað en þá kom bréf frá Isavia þar sem þeir báðu okkur um að stöðva framkvæmdina.“
Þetta segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, í Morgunblaðinu í dag um framkvæmdir félagsins við malbikun á bílastæðum við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli.
Borgin lét stöðva framkvæmdirnar síðasta sumar að kröfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Isavia, sem fer með reksturinn á flugvellinum. Landið er í ríkiseigu.
Leitað var svara um stöðu málsins hjá borginni. Í svari frá yfirlögfræðingi skipulags- og byggingarsviðs borgarinnar kemur fram að fátt standi í vegi fyrir veitingu byggingarleyfis fyrir framkvæmdinni annað en samþykki landeigenda.
„Við erum búin að sækja um byggingarleyfi og höfum lagt fram allt sem þarf en ekki samþykki landeigenda því Isavia eða ráðuneytið hafa ekki viljað gefa okkur slíkt leyfi,“ segir Árni um stöðuna.
Hann segir málið lítið þokast áfram. „Nokkur símtöl fyrir jól, en nánast engin hreyfing á þessu máli í þó nokkuð langan tíma.“
Svo virðist sem langt sé í land með að málið leysist, miðað við sjónarmið þeirra sem að því koma. Í svari Isavia um stöðu málsins segir: „Stefna Isavia er að félagið annist sjálft endurbætur á slíkum lóðum, m.a. með tilliti til jafnræðis með notendum Reykjavíkurflugvallar. Stjórn Isavia hefur lýst áhyggjum af því að aðalflugbraut Reykjavíkurflugvallar fellur út af skipulagi Reykjavíkurborgar árið 2016 en það mun jafngilda lokun flugvallarins í þeirri mynd sem nú er. Hefur stjórn félagsins af þeim sökum ákveðið að ekki skuli ráðist í kostnaðarsamar endurbætur á flugvallarsvæðinu fyrr en stefna ríkis og borgar liggur skýr fyrir um framtíð flugvallarins.“
Málið á sér nokkurn aðdraganda. Árið 2007 sótti FÍ um leyfi til að taka land undir malarborið bílaplan. Veitt var vilyrði og sú framkvæmd kláruð. Aldrei var þó sótt um byggingarleyfi og það voru meðal annars rök borgarinnar fyrir stöðvun framkvæmda. Síðasta sumar hófust svo framkvæmdir við enn viðameira bílaplan sem til stóð að malbika. Bréfaskipti fóru af stað á milli lögmanna ríkis og flugfélagsins og endaði með því að framkvæmdin var formlega stöðvuð af borginni.
Í október svaraði fjármálaráðherra fyrirspurn Kristjáns L. Möller, alþingismanns, á Alþingi. Þar sagði ráðherra meðal annars frá því að flugfélagið hefði hafnað boði Isavia um að ríkið tæki að sér verkið. En það boð mun hafa verið sett fram til að gæta jafnræðis gagnvart rekstraraðilum á flugvellinum. Jafnfram kom fram í svari ráðherra að landið við flugvöllinn væri mjög takmarkað og því mikilvægt fyrir starfsemi hans. Flugfélagið telur sig hafa rétt á umræddu svæði. Þar stendur í dag húsgrunnur flugskýlis sem brann árið 1975 og er bílum lagt innan hans að sögn Árna.
„Við höfum sett þessa möl sem þar er og séð um lýsingu, snjómokstur og haldið utan um þau bílastæði þannig að það hefur verið inni á okkar umráðasvæði í tugi ára. Við töldum okkur hafa ákveðinn rétt til að framkvæma þetta [...] Við höfum verið til viðræðna við Isavia um að þeir kæmu að þessu verki,“ segir Árni.