Óveður er enn undir Hafnarfjalli og sunnanmegin í Hvalfirði. Vindur er hins vegar að ganga niður undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og norðanverðu Snæfellsnesi.
Það eru hálkublettir í Þrengslum. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á öðrum leiðum á Suðurlandi. Þæfingsfærð er á Lyngdalsheiði.
Á Vesturlandi er þungfært á Fróðárheiði og verið að moka, hálka er á Holtavörðuheiði. Greiðfært er orðið nokkuð víða þótt enn sé hálka eða hálkublettir á nokkrum stöðum.
Á Vestfjörðum er snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði en hálka á Þröskuldum. Flughálka er frá Brjánslæk að Klettshálsi. Snjóþekja er á Kleifaheiði en hálka á Hálfdáni og Mikladal. Hálka, snjóþekja eða krapi er á öðrum leiðum.
Á Norðvesturlandi er flughálka í Skagafirði og frá Sauðárkróki að Hofsósi, einnig á Út-Blönduhlíð. Greiðfært er í Húnavatnsýslum en hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum.
Á Norðausturlandi er hálka á flestum leiðum í kringum Akureyri. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum.
Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Á Suðausturlandi er hálka frá Höfn að Lómagnúp en hálkublettir á öðrum leiðum.