OR hækkar vatns og fráveitugjöld

Kalda vatn Reykvíkinga kemur úr Gvendarbrunni.
Kalda vatn Reykvíkinga kemur úr Gvendarbrunni.

Orkuveita Reykjavíkur hækkaði gjald fyrir kalda vatnið um áramót til samræmis við byggingavísitölu og fráveitugjaldið um 5% að auki vegna kostnaðar við endurnýjun í eldri götum.

Orkuveitan hefur sent út tæplega 62 þúsund álagningarseðla vatns- og fráveitugjalda vegna ársins 2012. Gjöldin skiptast á níu gjalddaga á árinu. Sá fyrsti er 4. febrúar og sá síðasti 2. október. Hægt er að óska eftir að greiða gjöldin í einu lagi á miðju ári.

Í tilkynningu frá OR segir að gjald fyrir kalda vatnið hafi hækkað um áramót til samræmis við byggingavísitölu og fráveitugjaldið um 5% að auki vegna kostnaðar við endurnýjun í eldri götum, sem áður var borinn af sveitarsjóðum.

Orkuveitan tók við innheimtu vatns- og fráveitugjalda í ársbyrjun 2011 en áður voru þau innheimt með fasteignagjöldum sveitarfélaga. Þau sveitarfélög þar sem fyrirtækið innheimtir vatnsgjöld eru Reykjavík, Akranes, Borgarbyggð, Álftaneshluti Garðabæjar, Stykkishólmur, Grundarfjörður, í hluta Hvalfjarðarsveitar og í Úthlíð í Biskupstungum. Fráveitur rekur Orkuveitan í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert