Söfnuðu 760.000 til Hjálparstarfs kirkjunnar

Hjálparstofnun kirkjunnar tekur við 760.000 króna ávísun frá fulltrúum vefsíðunnar …
Hjálparstofnun kirkjunnar tekur við 760.000 króna ávísun frá fulltrúum vefsíðunnar Hópkaup.

Vefsíðan Hópkaup efndi til leiks með fylgjendum sínum á facebook í desember til að láta gott af sér leiða og varð afraksturinn 760.000 króna styrkur til Hjálparstarfs kirkjunnar.

„Við vildum gera eitthvað nýtt og skemmtilegt með viðskiptavinum okkar sem fylgja okkur á facebook og styrkja gott málefni í leiðinni,“ segir Marketa Haraldsson Petru, markaðsstjóri Hópkaupa, í fréttatilkynningu.

Aðdáendur Hópkaupa á facebook gátu sagst „líka við“ leikinn og safnað þannig peningum. „Þetta mæltist ótrúlega vel fyrir og vorum við að vonast eftir því að safna 500.000 krónum til að gefa en fórum langt umfram það.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hópkaup láta gott af sér leiða því fyrir ári var hálft tonn af kjöti gefið til Fjölskylduhjálparinnar í nafni síðunnar og nú var það Hjálparstarf kirkjunnar sem varð fyrir valinu.

„Við viljum gefa um hver áramót og nú fengum við fólkið okkar sem kaupir tilboðin til að taka þátt í því á þennan skemmtilega hátt. Við völdum líka Hjálparstarf kirkjunnar þetta árið enda hafa þau verið að gera mjög góða hluti bæði erlendis við að útvega vatn til þeirra sem ekki hafa aðgang að því ásamt því að hjálpa þeim sem ekki hafa efni á að mennta sig á Íslandi til þess. Þessi vinna hreyfði við okkur og ákváðum við því að þeir skyldu verða fyrir valinu þetta árið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert