„Þarf að leita til þjóðarinnar“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Kristinn Ingvarsson

„Ég tel að það þurfi að leita til þjóðarinnar um framhaldið,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra um afstöðu sína til næstu skrefa í Evrópumálum. Hann boðaði kaflaskil í þessum málaflokki í þingræðu í gær og segir aðspurður að staðan breytist eftir kosningar.

„Þegar kjörtímabilið er úti hefst nýr kafli. Menn gengust inn á það vorið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu og stóðu hygg ég flestir í þeirri trú að þetta yrði tiltölulega skammvinnt ferli. En allir fyrirvarar voru á þessum tíma gerðir um endurmat á stöðunni.

Ég hef lengi talað fyrir því gagnvart samstarfsaðilum í ríkisstjórn að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli þeirrar þekkingar sem fyrir liggur. Fyrir þessu hefur ekki reynst hljómgrunnur. Nú verður hins vegar ekki lengur hjá því komist, og þótt fyrr hefði verið, að ráðast í slíkt endurmat. Í komandi þingkosningum verða stjórnmálaflokkarnir líka að skýra afstöðu sína.“

- Mun VG þá ekki styðja áframhald viðræðna ef flokkurinn á möguleika á aðild að nýrri ríkisstjórn?

„VG mun taka það til umræðu á flokksstjórnarfundi núna síðar í þessum mánuði og á landsfundi í febrúar. Mín skoðun hefur lengi verið skýr. Ég tel að það þurfi að leita til þjóðarinnar um framhaldið.“

VG ákveður hvort aðildarlok verða skilyrði

- Mun VG þá setja það sem skilyrði fyrir því að setjast með Samfylkingu í ríkisstjórn eftir kosningarnar?

„Ég er fyrst og fremst að lýsa minni skoðun. Eins og ég segi mun Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem flokkur taka málið til umfjöllunar á flokksráðsfundi í febrúar og svo aftur á landsfundi.“

- Er rétt að líf ríkisstjórnarinnar hafi hangið á bláþræði síðustu helgi, líkt og Jóhanna Sigurðardóttir gefur til kynna í samtali við RÚV, með þeim orðum að ef tillaga Jóns Bjarnasonar í utanríkismálanefnd hefði verið samþykkt hefði það fellt stjórnina?

„Ef hún segir það þá er það hennar mat. En ég kannast nú ekki við að svo tæpt hafi verið komið. Ég kannast ekki við það. En það verða aðrir að segja til um þetta - og þá er ég að vísa til þeirra sem hefðu slitið ríkisstjórnarsamstarfi á þessari forsendu,“ segir Ögmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert