Vekur athygli víða erlendis

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjölmiðlar erlendis hafa veitt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær um að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið talsverða athygli. Þannig hafa til að mynda fréttaveitur eins og Reuters og AFP greint frá ákvörðuninni sem og Bloomberg-fréttaveitan.

Sama er síðan að segja um fréttavef bandaríska dagblaðsins New York Times og breska viðskiptablaðsins Financial Times. Einnig fréttavef írska dagblaðsins Irish Times, norska dagblaðsins Nationen og fréttavefina Euobserver.com og Public Service Europe sem sérhæfa sig í fréttum af evrópskum málefnum. Sömuleiðis mætti nefna tyrkneska fréttavefinn Turkish Weekly og suðurameríska fréttavefinn Presna Latina sem er með höfuðstöðvar í Havana, höfuðborg Kúbu.

Fréttir erlendu miðlanna eru nokkuð á sömu leið. Greint er frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar, tildrögum þess að sótt var um inngöngu í Evrópusambandið í kjölfar bankahrunsins hér á landi og stöðu viðræðnanna.

Einnig er í sumum miðlanna fjallað um að meirihluti landsmanna sé andvígur inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt skoðanakönnunum og vilji draga umsóknina til baka. Þá er rætt um að mögulegt sé að næsta ríkisstjórn landsins verði andsnúin umsókninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert