VG spáði aldrei hraðferð í ESB

Álfheiður Ingadóttir
Álfheiður Ingadóttir

Það var aldrei okkar mat að þetta ætti að fara einhverja hraðferð í gegn. Það er rangt,“ segir Álfheiður Ingadóttir, þingflokksformaður VG, aðspurð hvort rétt sé að þingflokki VG hafi verið sagt að aðildarferlinu að ESB yrði lokið innan tveggja ára frá því að umsókn var lögð fram.

En samkvæmt heimildum Morgunblaðsins úr þingflokki VG var jafnvel rætt um 19 mánuði í þessu efni og átti það þátt í að vissir þingmenn féllust á að samþykkja umsóknina.

Ýmsir fræðimenn töldu hraðferð inn í ESB raunhæfan kost og má þar nefna að Baldur Þórhallsson, Jean Monnet-prófessor í Evrópufræðum við Háskóla Íslands, taldi að þjóðaratkvæðagreiðsla gæti legið fyrir um ári eftir að umsókn var lögð fram.

Blandi umsókn og kosningum ekki saman

Álfheiður segir þá ákvörðun að hægja á aðildarviðræðunum fela í sér raunsætt mat, enda beri ekki að blanda viðræðunum inn í kosningabaráttuna.

„Þetta er raunsætt mat á stöðunni. Ég hef í raun engu að bæta við það sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála því sem þar kemur fram, að það eigi ekki að fara að blanda viðræðunum sem slíkum inn í kosningabaráttuna. Þetta er raunsætt mat. Því miður næst ekki að ljúka þessu fyrir kosningar eins og til stóð. Þetta eru eðlileg viðbrögð við þeirri stöðu, að mínu mati.“

- Hvenær telurðu raunhæft að ljúka viðræðunum?

Við skulum láta kosningarnar koma á undan. Það verður ekki hægt að ljúka þeim fyrir þær.

- Telurðu að þetta skref gangi nógu langt fyrir þá kjósendur ykkar sem eru andvígir aðild?

Ég tel þetta raunsætt skref miðað við stöðuna og hef í rauninni ekkert meira um það að segja.

Samfylkingarmenn ræddu um tvö ár

- Samkvæmt mínum heimildum var það viðhorf forystumanna hjá VG, þegar ríkisstjórn var mynduð vorið 2009, að viðræðurnar myndu ekki taka meira en tvö til þrjú ár. Nú eru fjögur ár liðin.

Það var aldrei okkar mat að þetta ætti að fara einhverja hraðferð í gegn. Það er rangt. Það voru ýmsir í Samfylkingunni sem töldu að þetta myndi taka tvö til þrjú ár. Við hins vegar bundum vonir við það - og það held ég að allir hafi gert - að þessu yrði lokið fyrir kosningar, ekki seinna en seinni part ársins 2012. En nú er staðan allt önnur, eins og við vitum, og menn verða auðvitað að bregðast við raunveruleikanum eins og hann er á hverjum tíma. Það þýðir ekki að byggja á óskhyggju um allt aðra stöðu. Þetta er staðan og þetta er raunsætt mat á henni, að mínu mati.“

Margt hefur orðið til tafar 

- Hvað hefur einkum orðið til tafar?

Það er ekkert einkum. Það eru mjög margir þættir, bæði innanlands og í Evrópu. Það er ekkert eitt og skiptir í raun engu máli. Við erum að horfa fram á við og meta stöðuna eins og hún er í dag.

„Við þurfum ekki að vera að velta því fyrir okkur af hverju hún er svona. Staðreyndin er sú að það tókst ekki og tekst ekki að ljúka þessum viðræðum fyrir kosningar og við því þarf að bregðast.“

- Sumir stuðningsmenn Samfylkingarinnar halda því fram að VG hafi tafið aðildarferlið, þar með talið ráðherrar flokksins, með framgöngu sinni. Er eitthvað hæft í þessu?

Ég kýs að tjá mig ekki um það. Það er margt sem hefur tafið þetta ferli. Eitthvað getur skrifast á okkar reikning hér innanlands, ráðherra ríkisstjórnar og á Alþingi, en annað getur líka skrifast á reikning aðstæðna hjá Evrópusambandinu og í Evrópu yfirhöfuð. Ég tel ekki að það þjóni neinum tilgangi að velta þessu fyrir sér. Staðan er eins og hún er. Það er ekki hægt að ljúka þessu fyrir kosningar. Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið og það er eðlilegt að bregðast við því, með ábyrgum hætti eins og gert er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert