„Er þetta flókið?“

Guðmundur Steingrímsson, alþingsmaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, alþingsmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir að standa ætti við þá ákvörðun sem meirihluti Alþingis tók um að sækja aðild að Evrópusambandinu. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægja á viðræðuferlinu sé verið að þyrla upp ryki.

Guðmundur sagði á Alþingi í dag, að hér á landi væri pólitísk menning sem byggist á valdabrölti og átökum. Þessi menning leiddi til þess að Alþingi virtist ókleift að taka ákvörðun í mikilvægum málum og standa við markaða stefnu og ljúka við ferla sem búið væri að setja mál í.

„Við ákváðum hér í þessum sal að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Við gerðum það með vönduðu áliti utanríkismálanefndar. Það var fyrir því frekar skýr meirihluti. Þetta á ekki að vera flókið. Í kjölfarið hefjum við viðræður. Þær hafa gengið ágætlega. Við skipuðum mjög góða viðræðunefnd. Síðan hefur það alltaf legið fyrir að þjóðin kýs. Er þetta flókið? Er þetta erfitt?

En að hverju verður við vitni síendurtekið? Það er spilað leiki með þetta ferlið. Það eru uppþot. Það eru reyksprengjur, smjörklípur. Stjórnmálamenn af gamla skólanum hér inni, ungir og gamlir, sjá sér leik á borði. Þjóðin á rétt á því að við stöndum við okkar ákvarðanir og þjóðin á rétt á því að taka upplýsta ákvörðun í þessu. Við ákváðum að leyfa henni að gera það. Það tekur tíma. Ég held að það þurfi róttæka nýja pólitíska menningu og við í Bjartri framtíð ætlum að bjóða upp á hana í næstu kosningum til að breyta þessu,“ sagði Guðmundur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknar, svaraði Guðmundi og sagði að þeir sem töluðu um ný vinnubrögð og valdabrölt stæðu í því að stofna nýja stjórnmálaflokka til að brjótast til valda. Það væri valdabrölt. Hann sagðist líka efast um að það væri svo mikið nýtt í þessum nýju flokkum.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði rétt hjá Guðmundi að með þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar væri verið að spila leiki. Hann spurði hvort eitthvað hefði skýrst við þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða hvort þetta væri fallið til þess að setja niður deilur. Þessi umsókn hefði farið af stað í ósætti. Það hefðu alla tíð verið ósætti um það innan stjórnarflokkanna og það hefði haft áhrif á allt ferlið.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, ítrekaði að afstaðan til ESB yrði eitt af kosningamálum í vor. Hann sagði að pólitísk umræða á Íslandi snérist of mikið um form og ferli, en ekki um efnisatriði máls. Það sæist vel í umræðum um aðild Íslands að ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert