Fyrsta skref í að hækka menntunarstig

Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson kynna tilraunaverkefnið
Katrín Jakobsdóttir og Guðbjartur Hannesson kynna tilraunaverkefnið Styrmir Kári

Ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hyggjast hrinda af stað tilraunaverkefni í haust til þess að hækka menntunarstig á vinnumarkaði. Á meðal markmiða þess verður að kanna spurn eftir endurmenntun og þróa samstarf símenntunarmiðstöðva, framhaldsskóla og háskóla í endurmenntun á vinnumarkaði.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, funduðu með forsvarsmönnum vinnumarkaðarins í dag og ræddu um áframhaldandi samstarf á sviði vinnumarkaðs- og menntamála til að draga úr atvinnuleysi og hækka menntunarstig á vinnumarkaði. Að fundinum loknum var kynnt tilraunaverkefni á sviði endurmenntunar sem fyrsta skref í átt að 2020 markmiðum þessara aðila um hækkað menntunarstig.

Fyrir utan að kanna eftirspurn eftir endurmenntun og þróa samstarf menntastofnana á því sviði, verða markmið verkefnisins að innleiða og þróa matskerfi hjá símenntunarmiðstöðvum á fyrra námi og raunfærni sem viðurkennd er af öðrum skólastigum, þróa nýjar námsleiðir í samstarfi menntakerfis og atvinnulífs á einstökum svæðum út frá þörfum þar, kanna þörf fyrir námsstyrki og útfæra áfram það kerfi sem komið var upp með Nám er vinnandi vegur fyrir atvinnuleitendur. Þá er tilgangur verkefnisins að meta kostnað við að ná markmiðum um hækkað menntunarstig.

Verkefnið verða framkvæmd annars vegar í Norðvesturkjördæmi og í Breiðholti í Reykjavík hins vegar.  Á verkefnið að standa í eitt ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert