Ólafur Ragnar: Loftslag jarðar er úr skorðum

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson tekur nú þátt í Heimsþingi um hreina orku og vatnsbúskap veraldar sem haldið er í Abu Dhabi og flutti í gær ræðu á hátíðarsamkomu sem haldin var þegar Zayed orkuverðlaunin (Zayed Future Energy Prize) voru afhent. Verðlaunin, sem kennd eru við landsföður Sameinuðu arabísku furstadæmanna, hafa á skömmum tíma orðið ein virtustu orkuverðlaun í veröldinni og er forseti Íslands formaður dómnefndarinnar.

Þetta kemur fram í frétt á vef forsetaembættisins.

Heimsþingið sækir fjöldi þjóðarleiðtoga, ráðherra og forystufólks í viðskiptum og vísindum hvaðanæva úr heiminum. François Hollande forseti Frakklands, Cristina Fernández de Kirchner forseti Argentínu og Rania drottning Jórdaníu voru meðal ræðumanna við setningu þess í gær.

Í ræðu sinni við verðlaunaafhendinguna áréttaði forseti Íslands að fárviðri, frosthörkur, flóðbylgjur, skógareldar og aðrar hamfarir í veðri víða um veröld sýndu að loftslag jarðarinnar væri að fara úr skorðum. Bráðnun íss á Norðurslóðum leiddi til fimbulkulda í Norður-Kína og fellibylja í Bandaríkjunum. Sjávarborð um heim allan gæti hækkað um 20 metra ef helmingur Grænlandsjökuls og fjórðungur íss á Suðurskautslandinu hyrfu á þessari eða næstu öld. Þúsundir borga myndu þá sökkva í hafið. Breytingar á orkubúskap jarðarbúa væru eina örugga leiðin til að forða mannkyni frá þessum ósköpum. Þess vegna fælu Zayed orkuverðlaunin í sér mikilvæg skilaboð, sýndu hverju samspil tækni og hugsjóna gæti áorkað.

Í tengslum við heimsþingið er haldin stór sýning sem helguð er endurnýjanlegri orku, orkusparnaði og öruggum og sjálfbærum vatnsbúskap. Fjöldi fyrirtækja kynnir tækninýjungar og starfsemi sína á sýningunni og mörg þjóðlönd eru þar með sérstaka bása. Jarðhitafyrirtækið Reykjavík Geothermal er meðal þeirra fyrirtækja sem taka þátt í sýningunni og jafnframt sitja nokkrir íslenskir sérfræðingar heimsþingið. Óli Grétar Sveinsson, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun, er meðal frummælenda í málstofu um vatnsorku og Þorsteinn Guðnason frá Aqua Omnis tekur þátt í málstofum um útflutning á vatni og vatnsbúskap.

Hér má sjá fleiri myndir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert