Húsleitir og handtökur hjá Outlaws

Frá aðgerðum lögreglu gegn Outlaws sl. haust.
Frá aðgerðum lögreglu gegn Outlaws sl. haust. mbl.is

Lagt var hald á efni til sprengigerðar, haglabyssu, loftskammbyssu, skotfæri og fíkniefni í aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær gegn Outlaws-vélhjólagenginu. Efni, sem lögreglan telur að hægt sé að nýta til sprengigerðar, fannst bæði í félagsaðstöðu Outlaws sem og á heimili eins félagsmanna.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að hjá sama manni hafi einnig verið að finna loftskammbyssu og hafi hún verið tekin í vörslu lögreglu. Þá fundust haglabyssa og skotfæri í félagsaðstöðu Outlaws, en byssan reyndist stolin.

Þá segir, að þrír meðlimir Outlaws, en mennirnir eru á þrítugs-, fertugs- og fimmtugsaldri, hafi verið handteknir í þessum aðgerðum, en allir hafa þeir áður komið við sögu hjá lögreglu.

Á heimili eins þeirra var ennfremur lagt hald á ætluð fíkniefni í söluumbúðum. Yfirheyrslur yfir mönnunum stóðu yfir í gær og í dag, en þeir eru nú lausir úr haldi lögreglu.

Við þessar aðgerðir og húsleitir naut lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og sprengileitarhunds, auk fíkniefnaleitarhunda frá tollinum.

Í byrjun október framkvæmdi lögreglan einnig húsleitir hjá liðsmönnum Outlaws í Hafnarfirði og voru alls 16 handteknir í aðgerðum lögreglunnar.

Þá sagði lögreglan að tilefni aðgerðanna gegn Outlaws hefði verið rökstuddur grunur um að félagar í vélhjólagenginu hefðu áformað hefndaraðgerðir gegn einstökum lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra. Lögreglan lagði hald á vopn, fíkniefni og þýfi í aðgerðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert