„Mikil og vaxandi óvissa er um örlög aðildarbeiðni Íslands að ESB,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs að hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið sem hann segir að sé hugsuð til þess „að kjósendur VG geti gleymt skömminni fram yfir kosningar.“
Pétur segir að hin risavaxna kínverska utanríkisþjónusta sé hins vegar ekki í neinum vafa og þrýsti á um viðskiptasamning við Ísland sem myndi falla úr gildi ef landið gengi í Evrópusambandið. „Það sýnir hvað þeir eru vissir um að Ísland verði ekki hluti af ESB,“ segir hann á Facebook-síðu sinni í dag.
Pétur ítrekar ennfremur andstöðu sína við inngöngu Íslands í Evrópusambandið og viðræðurnar um hana. Fyrir liggi hvað sé í boði af hálfu sambandsins í Lissabon-sáttmálanum, grundvallarlöggjöf þess. „Menn geta strax séð niðurstöðu svokallaðra samningaviðræðna með því að lesa Lissabon-sáttmálann. Það stendur ekki til að Ísland breyti honum.“