Ræðst hvort hægt verði að klára málið

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins mótmæltu því harðlega í umræðum á Alþingi í morgun að verið væri að keyra umsagnarferli um frumvarp að nýrri stjórnarskrá á allt of miklum hraða í gegnum nefndir þingsins og án þess að eðlileg umræða gæti farið fram í þeim um málið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og sagði ljóst að þingið hefði runnið út á tíma fyrir nokkru síðan til þess að fara í heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Vísaði hann þar meðal annars í gagnrýni sérfræðinga á málið. Engu að síður hefði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýst því yfir nýverið að málið væri eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar og að ekkert annað kæmi til greina en að halda því áfram.

Bjarni sagði að síðast hefði það gerst á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í morgun að komið hefði fram að óformleg ákvörðun hefði verið tekin um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins, sem heldur utan um stjórnarskrármálið, lyki sínum störfum á allra næstu dögum. Þess vegna lægi á að utanríkismálanefnd skilaði sínu áliti. Hins vegar væri ekki búið að ljúka umræðu um málið í nefndinni og fyrir vikið stefndi í að hún myndi aðeins skila inn einhvers konar sjónarmiðum til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Viljað að málið væri komið lengra

„Ég vil bera það upp við hæstvirtan forsætisráðherra hvort það sé virkilega svo að það sé ein af hennar helstu kröfum til þingsins að málið verði í heild sinni klárað núna bara á næstu dögum vegna þess að þetta setur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þá vandræðalegu stöðu að þurfa núna bara næstu sólarhringana að fara að senda frá sér algerlega ófullkomið og illa ígrundað álit undir stöðugum ábendingum sérfræðinga um að málið sé ekki nægjanlega vel undirbúið,“ sagði hann.

Jóhanna sagði það hafa legið lengi fyrir að ríkisstjórnin legði áherslu á að klára stjórnarskrármálið á kjörtímabilinu. Málið hefði verið í gangi meira eða minna allt kjörtímabilið allt frá árinu 2009. Hún sagði málið komið styttra á veg en hún hefði sjálf óskað á þessum tímapunkti þegar ekki væri meira eftir af kjörtímabilinu. Hins vegar væri það í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og beðið væri eftir því að nefndir þingsins skiluðu álitum sínum. Til þess hefðu þær fengið mánuð sem væri fremur rúmur tími til þess en sú vinna hefði gengið hægt.

Viðræður í gangi við stjórnarandstöðuna

„Málið er bara í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vona að hún komist að niðurstöðu um það hvernig best er að haga fyrirkomulagi í þessu máli. Mér er kunnugt um það að forystumenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa verið í samtölum við forystumenn stjórnarandstöðunnar um þetta mál og hvernig best sé að halda á því. Ég leyni því ekki að ég tel að það sé skynsamlegast að halda á því með þeim hætti að menn setji niður tímaplan í þessu máli þar sem lagt verður upp með hvernig þetta mál verður rætt hér á Alþingi og síðan verður bara að leiða það í ljós hvort menn klári þetta mál endanlega en það er mín eindregin ósk að svo verði,“ sagði Jóhanna.

Bjarni var ekki sáttur við svörin og sagði Jóhönnu svara út og suður. Hann minnti á að málið snerist um stjórnarskrána og það væri ekki hægt að kasta til höndunum við endurskoðun hennar. Sagði hann að svo virtist sem forsætisráðherra væri umhugað um það eitt að klára málið. Hins vegar væri fullkomlega óraunhæft að ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á kjörtímabilinu. Jóhanna vísaði til sjálfstæðis þingsins og sagðist ekki stjórna störfum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þess. Sagði hún rétt að kanna með viðræðum við stjórnarandstöðuna hvort hægt væri að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það að ljúka málinu. Málið væri í höndum þingsins.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert