Miklar umræður spunnust á Alþingi í morgun um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Bæði í óundirbúnum fyrirspurnum og í umræðum um störf þingsins sem fram fóru í kjölfarið. Snerust þær ekki síst um þá ákvörðun að víkja Jóni Bjarnasyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, úr utanríkismálanefnd áður en tillaga, sem hann var einn flutningsmanna að og snýst um að viðræður við ESB verði lagðar til hliðar og ekki teknar upp aftur nema með samþykki í þjóðaratkvæði, væri tekin fyrir í nefndinni. Var forsætisráðherra sakaður um að reyna með því að stjórna störfum þingsins og vega að sjálfstæði þess.
Jón beindi þeirri fyrirspurn til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra hvort það væri ekki enn í fullu gildi sem kveðið væri á um í stjórnarsáttmála VG og Samfylkingarinnar að stjórnarþingmenn hefðu rétt á sinni sannfæringu í málinu og til þess að berjast fyrir henni innan og utan þings. Hann lagði ennfremur áherslu á að umsóknin um aðild að ESB hefði ekki verið ríkisstjórnarmál enda hefði það verið lagt fram sem þingmannamál þar sem hluti þingmanna VG hefði ekki getað stutt það. Sagði hann að líklega hefði aldrei komið til stjórnarsamstarfs flokkanna ef ekki hefði verið búið um hnútana með þeim hætti.
Málfrelsið ekki tekið af þingmönnum
Jóhanna svaraði því til að hún vissi ekki betur en að samþykkt hefði verið í flokksstofnunum VG og Samfylkingarinnar að málið yrði sett í þann farveg sem gert hefði verið og kveðið væri á um í stjórnarsáttmálanum og umsóknin síðan samþykkt á Alþingi með drjúgum meirihluta atkvæða. Þá sagðist hún ekki vita til þess að málfrelsi hefði verið tekið af Jóni eða öðrum þingmönnum vegna málsins. Hitt væri svo annað mál að stjórnarsáttmálinn væri skýr um málsmeðferðina.
Jón sakaði forsætisráðherra um ofríki gagnvart Alþingi og að beita sér gegn því að málið færi aftur til Alþingis eins og tillagan í utanríkismálanefnd kvæði á um. Lagði hann áherslu á að þingið réði framvindu málsins en ekki ráðherrann. Jóhanna ítrekaði að stjórnarsáttmálinn væri skýr í þessum efnum og sagðist hún ekki skilja hvers vegna þyrfti að stafa hann fyrir þingmenn. Tillagan í utanríkismálanefnd hefði gengið gegn sáttmálanum ef hún hefði náð fram að ganga.
Málið haldi áfram á næsta kjörtímabili
Þá lagði Jóhanna áherslu á að þingsályktunartillagan, sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2009 um að sótt yrði um aðild að ESB, gerði ráð fyrir því að málið héldi áfram á næsta kjörtímabili á meðan henni hefði ekki verið breytt. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók málið síðan upp í umræðum um störf þingsins og sagði forsætisráðherra hafa viðurkennt í umræðunni að hafa beitt hótunum til þess að hindra að tillagan í utanríkismálanefnd næði fram að ganga. Fór hann fram á það við forseta Alþingis að hann tæki málið upp við forsætisráðherra. Þessum ásökunum hafnaði Jóhanna alfarið.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lagði orð í belg í umræðunni og sagði að tillaga eins og sú sem komið hefði fram í utanríkismálanefnd hefði þegar verið felld á Alþingis síðastliðið sumar. Þingviljinn hefði þar með komið fram í málinu. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, benti hins vegar á að ýmsir þingmenn sem greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu hefðu rökstutt það með því að koma þyrfti fram sjálfstæð tillaga um málið en sú tillaga gekk út á að kosið yrði um málið í sömu kosningum og á sama kjörseðli og um tillögu að nýrri stjórnarskrá. Sagði Ásmundur að slík sjálfstæð tillaga væri nú í utanríkismálanefnd.