Vilborg komin á suðurpólinn

Ferð Vilborgar gekk í öllum aðalatriðum vel, en síðustu dagar …
Ferð Vilborgar gekk í öllum aðalatriðum vel, en síðustu dagar hafa þó verið erfiðir. M.a. hefur magakveisa verið að þjá hana.

Vilborg Arna Gissurardóttir lauk í dag ferð sinni á suðurpólinn. Hún gekk 1140 km á skíðum, en það tók hana 60 daga að komast á pólinn. Vilborg er fyrsti Íslendingurinn í sögunni til að ganga á suðurpólinn ein síns liðs.

Vilborg náði á pólinn um kl. 23 að íslenskum tíma eða um kl. 21 að staðartíma. Elín Sveinsdóttir, sem verið hefur Vilborgu innan handar hér á landi, segir að fyrsta verk Vilborgar eftir að hún var kominn á pólinn hafi verið að hringja í ættingja sína. Dagurinn hafi verið erfiður hjá henni, en hún sé glöð með að hafa náð markmiði sínu.

Vilborg gekk í dag um 18 km í um 26 stiga frosti. Síðustu dagar hafa reynst Vilborgu erfiðir enda hafa veður og aðstæður allar verið óhagstæðar en þar að auki hefur Vilborg glímt við magakveisu og lítilsháttar kal á lærum.

Vilborg áætlaði fyrirfram að það tæki hana 50 daga að ganga á pólinn.  Aðstæðurnar hafa gert það að verkum að hún hefur þurft að ganga tíu dögum lengur en fyrstu áætlanir hennar gerðu ráð fyrir. 

Safnar fyrir styrktarfélag Kvennadeildar LSH

Jákvæðni, áræðni og hugrekki Vilborgar á þessari einstöku vegferð hefur skilað sér heim til Íslands, enda hefur áheitasöfnun hennar í þágu Lífs styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans tekið kipp á síðustu dögum. Nú hafa safnast um 5 milljónir króna og munar þar mestu um framlag verslunarkeðjunnar Iceland sem gaf eina milljón króna til söfnunarinnar seint á síðasta ári. 

Númer söfnunarinnar er 908 15 15 og dragast þá 1500 kr af símreikningi. Einnig er hægt að heita á spor hennar með frjálsum framlögum á heimasíðu Vilborgar www.lifsspor.is.

Vilborg ætlar að gista eina nótt á pólnum og verður síðan flutt með flugi á Union Glacier,  en þar er að finna bækistöðvar langflestra Suðurpólsfara. Búast má við að Vilborg dvelji í Union Glacier í nokkra daga eða þar til hún nær flugi til Punta Arena í Chile en þangað flaug hún upphaflega frá London í byrjun nóvember á síðasta ári.

Útlit er fyrir að Vilborg Arna komi loks heim til Íslands um aðra helgi.

10 ára gamall draumur

Vilborg er 32 ára gömul ferðamálafræðingur að mennt. Hún hefur frá 14 ára aldri starfað við ferðaþjónustu s.s. sem hótelstarfsmaður, leiðsögumaður, við markaðsmál og uppbyggingu á ferðaþjónustu í dreifbýli. Hún hefur auk þess komið að skipulagningu ferða og leiðangra, bæði hér á landi og í óbyggðum Grænlands.

Það eru 10 ár síðan Vilborg lét sig fyrst dreyma um að ganga á suðurpólinn. Leiðangur á þennan fjarlæga stað krefst gríðarlegs undirbúnings, aðhalds og aga.

Áður hafa þrír Íslendingar gengið á suðurpólinn, en það eru þeir Haraldur Örn Ólafsson, Ólafur Örn Haraldsson og Ingþór Bjarnason. Þeir náðu þessum áfanga á nýársdag árið 1998.

Vilborg Arna Gissurardóttir var 60 daga á göngu.
Vilborg Arna Gissurardóttir var 60 daga á göngu. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert