Óvissustigi lýst yfir á Landspítala

Ákveðið hefur verið að setja Landspítala á óvissustig þar sem álag á spítalanum hefur aukist mikið í dag.

Vegna inflúensu, Nóró- og RS-vírus-faraldra er spítalinn yfirfullur og eru 39 sjúklingar í einangrun. Að auki bíða á bráðamóttöku 15 sjúklingar sem þurfa á innlögn að halda og af þeim eru fimm sem þurfa einangrun. 

Ákveðið hefur verið að opna fleiri sólarhringsrúm í dag og næstu daga. Verður það á deildum B7, A2, A4 og 21A. Einnig mun geðsvið reyna að taka við ákveðnum sjúklingum tímabundið og barnadeild verður með nokkur pláss fyrir ungmenni undir 20 ára aldri. 

Fylgst er með stöðu mála mörgum sinnum á dag og staðan endurmetin á hádegi daglega næstu vikuna, að því er fram kemur á vef Landspítalans.

„Alvarlegt ástand er nú á Landspítala vegna inflúensu, Nóró- og RS-vírusa. Fjöldi inniliggjandi sjúklinga þarfnast af þeim sökum einangrunar. Stöðugur straumur sjúklinga er einnig á bráðamóttöku sem þurfa innlögn með eða án einangrunar.  

Það eru eindregin tilmæli til fólks að takmarka heimsóknir á spítalann eins og framast er unnt meðan á þessu stendur. Á sjúkrahúsum liggja sjúklingar sem geta verið mjög viðkvæmir fyrir þessum sýkingum og verða því oft alvarlega veikir ef þeir smitast. Hafi fólk verið með niðurgang, uppköst eða einkenni eins og beinverki, höfuðverk eða hita undanfarna tvo sólarhringa er eindregið ráðlagt að fresta heimsókn á spítalann.

Aðstandendum er velkomið að hringja og fá upplýsingar um sjúkling eða tala við hann í síma,“ segir enn fremur á vef Landspítalans.

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að svo virðist sem inflúensutilvikum sé enn að fjölga og að toppnum sé ekki enn náð. Í síðustu viku hafi verið staðfest 180 tilfelli en í morgun hafi þau verið orðin 170 og vikan ekki búin enn. „Ég vona að við förum að ná toppnum fljótlega en það verður þungt áfram en vonandi ekki jafnslæmt og núna,“ segir Haraldur.

Hann segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Landspítalinn þarf að lýsa yfir óvissustigi en það hafi einnig verið gert þegar svínaflensan var sem verst árið 2009. Staðan sé ekki jafnslæm á öðrum sjúkrahúsum á landinu en Landspítalinn er viðkvæm stofnun og þangað öllum stefnt sem þungt er og ekki hægt að vísa fólki annað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert