Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur gagnrýnir að Íslendingar skuli hampa Vilhjálmi Stefánssyni landkönnuði og hafi sett á stofn vísindastofnun sem beri hans nafn. Vilhjálmur sé frægur að endemum.
Haraldur segir þetta í pistli á blogg-síðu sinni, en í pistlinum rekur hann hvernig Vilhjálmur stýrði leiðangri á norðurpólinn árið 1913 á skipinu Karluk og ber leiðangurinn saman við leiðangur Ernest Shackleton á suðurpólinn á svipuðum tíma. Shackleton tókst á við afar erfiðar aðstæður, en snéri aftur án þess að missa nokkurn mann.
Að minnsta kosti þrjár bækur hafa nú komið út, þar sem fjallað er um Karluk-leiðangurinn. Haraldur segir að þessar bækur sýni undarlega framkomu Vilhjálms Stefánssonar og þær séu ekki fallegur lestur.
Vilhjálmur vildi leita að nýju meginlandi í grennd við norðurpólinn. Karluk festist hins vegar strax í ís „Vilhjálmur varð fljótlega órólegur um borð og þoldi ekki biðina. Hinn 20. september yfirgefur hann skipið Karluk og lýsir yfir að hann ætli að skreppa í veiðiferð á hafísnum í nokkra daga. Hann tekur með sér tvo eskimóa veiðimenn, nokkra hundasleða, þrjá vísindamenn og miklar birgðir. Vilhjálmur sagðist munu koma til baka eftir viku til tíu daga.
Karluk var enn fastur í ísnum og rak fyrst til austurs en síðar nokkuð hratt til vesturs. Á meðan hélt Vilhjálmur yfir ísinn til suðurs og tók land í Alaska með fámennt lið sitt. Hann gerði enga tilraun til að hafa aftur samband við skipið Karluk,“ segir Haraldur.
Haraldur rekur síðan hvernig Barlett skipstjóri háði harða baráttu í marga mánuði við að bjarga mönnum sínum yfir ísinn á Wrangeleyjar í Íshafinu fyrir norðan Síberíu. Þaðan barðist hann ásamt einum öðrum manni til mannabyggða í Síberíu.
„Þegar Bartlett komst loks til Alaska hinn 28. maí hóf hann strax undirbúning til að senda bát til Wrangel. Á meðan kom í ljós að Vilhjálmur hafði ekkert aðhafst varðandi leit að hinni horfnu áhöfn og skipinu Karluk. Á meðan versnaði ástandið á Wrangel. Sumir létu nú lífið af næringarskorti og einn skipbrotsmannanna var myrtur. Allir mannasiðir og siðfræði var nú farin lönd og leið meðal áhafnarinnar og deilur um matarleifar urðu heiftúðugar. Aðeins eskimóarnir héldu sönsum og héldu reyndar lífinu í mannskapnum með veiðum,“ segir Haraldur í frásögn sinni.
Haraldur segir að eftir þetta hafi Vilhjálmur ekki verið af baki dottinn. Árið 1922 gerði hann út leiðangur til Wrangeleyjar í þeim tilgangi að eigna Kanada eyna. Í þennan leiðangur sendi hann fjóra menn og eina eskimóakonu, en hætti sjálfur við þátttöku á síðustu stundu. Allir mennirnir fórust en eskimóakonan Ada Blackjack komst ein af úr þeirri ferð tveim árum síðar.
„Hver er nú arfleifð Vilhjálms? Eftir hörmungarnar á Karluk og á Wrangeleyju varð Vilhjálmur strax mjög umdeildur. Einn nefndi hann „an explorer-cum-swindler”. Norski landkönnuðurinn Roald Amundsen hafði ekki mikið álit á honum og kallaði Vilhjálm „the greatest humbug alive”. Einnig var gert grín að fullyrðingu hans að hann hefði uppgötvað „ljóshærðu eskimóana”. En á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað þeð því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur. Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum,“ segir Haraldur.
Kristinn Guðjónsson, sem stundað hefur rannsóknir á heimskautasvæðum Kanada, segir í athugasemdum við pistil Haraldar. „Í þessu sambandi má nefna að Vilhjálmur hvatti kanadísk stjórnvöld til þess að flytja inúíta nauðungarflutningum á norðlægar eyjar heimskautasvæðanna til að styrkja tilkall þeirra til svæðanna sem og þeir og gerðu. Þetta leiddi til dauða hundraða. Það er hreint ótrúlegt að Háskóli Íslands skuli nefna stofnun eftir þessum manni.“