Bæjarstjórn Kópavogs hefur sett á stofn forsætisnefnd bæjarins sem hefur það hlutverk að undirbúa bæjarstjórnarfundi, ráða niður dagskrá og skipuleggja fundina. Er með því vonast til þess að fundirnir verði markvissari en áður.
Margrét Björnsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, segir að allir bæjarfulltrúar geti óskað eftir að málin verði tekin á dagskrá eftir sem áður. Hún segir að nú verði sú breyting að fundargerðir bæjarfélagsins fái sér lið þar sem tíminn til umræðna um þær verði takmarkaður við tvær 5 mínútna ræður á hvern bæjarfulltrúa auk andsvara. Hinsvegar geti bæjarfulltrúar óskað eftir því við forsætisnefnd að einstök mál úr fundargerðum verið tekin fyrir sérstaklega á fundum sem umræðuliður. Með þessu eigi að gera umræður markvissari um einstök málefni.
Í forsætisnefnd eiga sæti þrír fulltrúar, auk forseta bæjarstjórnar eru þar Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins og Hafsteinn Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar. Margrét er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Nefndin var skipuð á fundi bæjarstjórnar 8. janúar síðastliðinn til reynslu til þriggja mánaða.
Þetta fyrirkomulag hefur verið notað í nokkrum sveitarfélögum hérlendis, meðal annars Reykjavík. Átök hafa einkennt bæjarstjórnina í Kópavogi um nokkurt skeið og bæjarstjórnin oft ratað í fjölmiðla sökum þess. Með þessu er meðal annars ætlunin að reyna að skapa meiri sátt um umgjörðina og mun tillagan um stofnun forsætisnefndar hafa formlega komið frá fulltrúum minnihlutans.
Forsætisnefndin hefur þegar fundað einu sinni þar sem ákveðið var að ræða sérstaklega tvö mál á fundi bæjarstjórnar 22. janúar næstkomandi. Annarsvegar reglur um innritun og dvöl í leikskólum og hinsvegar tillögur starfshóps um Kópavogstún, Kópavogsbæinn og Kópavoghælið. Auk þess verða teknar fyrir fundargerðir nefnda og afgreiðsla mála frá nefndum.
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti fyrir áramót reglur um ræðutíma í bæjarstjórninni. Almenna reglan er sú að við umræðu um dagskrármál má ræðutími nú vera allt að 20 mínútur í fyrri umræðu en 10 mínútur í síðari ræðu. Framsögumenn mega þó tala þrisvar. Bæjarfulltrúar geta einnig gert stuttar athugasemdir, rætt um stjórn fundarins eða borið af sér ámæli og má ræðutími þá vera allt að ein mínúta. Ræðutími verður þó áfram óbundinn við síðari umræðu um fjárhagsáætlun og um aðalskipulag.
Nýmæli eru að forseti getur nú heimilað bæjarfulltrúum að veita stutt andsvar við einstökum ræðum um leið og þeir hafa verið fluttar en þá má einungis beina andsvarinu að máli viðkomandi ræðumanns en ekki að öðru. Hvert andsvar má taka tvær mínútur. Í raun gilda hér sömu reglur og á Alþingi því heimilt er að veita andsvar í tvígang, sé því svarað í millitíðinni. Andsvör eftir hverja ræðu mega þó ekki standa lengur en í 16 mínútur í einu.