Þráinn Bertelsson, þingmaður VG, sagði í þættinum Vikulokunum á RÚV í dag, að ef VG hefði ekki getað unað lengur við stjórnarsáttmálann sem þeir gerðu við Samfylkinguna hefði verið eðlilegra að slíta stjórnarsamstarfinu frekar er að fara á frysta aðildarviðræður við ESB.
Þráinn vill að viðræðurnar við Evrópusambandið haldi áfram eins og tekin var ákvörðun um að gera þegar ríkisstjórnin var mynduð árið 2009.
„Þessi ákvörðun er afskaplega skrítin og ekki réttlætanleg vegna þess að það var ekki ríkisstjórnin sem sótti um aðild að Evrópusambandinu. Það var Alþingi sem gerði það. Það er ríkisstjórnin sem ákveður að hægja á þessu ferli, frysta það eða hvað þeir vilja kalla það í sínum spuna. Það er ekki Alþingi, svo ég sé enga heimild til að gera þetta.“
Þráinn sagði að það væru vissulega deilur innan VG um þetta mál, en hann væri þó sannfærður um að mjög margir innan VG vildu nálgast Evrópumálið með þeim lýðræðislega hætti sem var ákveðinn í stjórnarsáttmálanum, en hann hefði verið undirritaður og samþykktur af flokknum. Hann kallaði ákvörðun um að hægja á samningaferlinu við ESB tvískinnung og „svik á sáttmála sem var gerður.“
„Mér finnst allt í lagi og skiljanlegt að einstakir þingmenn séu með læti og með uppistand, samanber Jón Bjarnason, en þegar heill flokkur stendur ekki við það sem sagt er þá finnst mér það mjög alvarlegt mál.
Ef að það var komið það mikið óþol í þetta stjórnarsamstarf að flokkurinn VG, í sínum óendalegum vísdómi, gat ekki lengur lifað við þennan stjórnarsáttmála óbreyttan og staðið við hann þá hefði átt að slíta stjórnarsamstarfi og í öllu falli finnst mér lágmark að menn reyni að segja sannleikann,“ sagði Þráinn.
Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í þættinum að það hefði verið óklókt fyrir Evrópuferlið að slíta á þessu máli núna í janúar. „Það hefði verið það versta sem hefði getað gerst fyrir þetta ferli.“
Magnús Orri sagði að Samfylkingin myndi standa við stefnu sína í Evrópumálum. „Ég tala fyrir þeirri skoðun að við munum ekki setjast í ríkisstjórn sem mun hætta aðildarviðræðum við ESB,“ sagði Magnús Orri.