Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, segir að íslensk stjórnvöld eigi tafarlaust að gefa út einhliða kvóta í makrílnum. ESB og Norðmenn hafa úthlutað sjálfum sér 90% ráðlags heildarafla.
Einar segir á blogg-síðu sinni að þessi einhliða ákvörðun sé í ætt við annað úr þessari átt. „Nú er ekki eftir neinu að bíða fyrir okkur. Eðlilegt er að þegar í stað verði gefinn út kvóti fyrir Ísland með sams konar hætti og gert hefur verið undanfarin ár.
Með ákvörðun ESB og Norðmanna er auðvitað fullreynt að sinni, að ná megi vitrænu samkomulagi varðandi nýtingu makrílstofnsins. Veiðarnar munu því halda áfram án samkomulags. Þá verður vitaskuld svo að vera.
Við Íslendingar höfum staðið að málum með sanngjörnum og ábyrgum hætti. Við höfum krafist sanngjarnrar hlutdeildar í veiðinni í samræmi við að makrílinn gengur í miklum mæli inn í íslenska lögsögu, sækir þangað mikinn næringarforða og sem veldur verulegu inngripi í lífkeðjuna. Rökin fyrir verulegri hlutdeild í veiðinni af okkar hálfu eru þess vegna algjörlega himinhrópandi og augljós,“ segir Einar.
Einar segir að makríldeilan sé náskyld aðildarumsókninni að ESB. „Það hafa ráðherrar okkar viðurkennt og vakið í raun athygli á með því að fullyrða að seinagangurinn í viðræðum um sjávarútvegsmálin í ESB viðræðunum sé vegna ágreiningsins um makrílinn.
Makríldeilan er einhver alvarlegasta milliríkjadeilan sem við höfum lengi staðið frammi fyrir. Við eigum í höggi við mjög einarða andstæðinga, sem eru greinilega tilbúnir til þess að ganga ótrúlega langt til þess að brjóta okkur á bak aftur.“