Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, hefur ákveðið að hætta sem formaður samtakanna á búnaðarþingi sem hefst í byrjun mars. Haraldur verður í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi í þingkosningunum í vor.
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins var formlega samþykktur á kjördæmisþingi flokksins í dag. Eftir að búið var að samþykkja listann skrifaði Haraldur á Facebook-síðu sína:
„Þá er þetta endanlega ljóst og frágengið. Nú tekur við nýtt og spennandi verkefni. Á nk. búnaðarþingi verður kosinn nýr formaður Bændasamtaka Íslands. 9. ára formennskutíð lýkur þá, og er ég fyrst og fremst þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk að starfa á þeim vettvangi.“
Ekki náðist í Harald í kvöld, en hann var upptekinn út í fjósi að mjólka.