Fyrirspurnum til garðyrkjustjóra á höfuðborgarsvæðinu fjölgar með hverju árinu vegna hæðar trjáa.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að algengt sé að fólk spyrjist annars vegar fyrir um hvort þeim sé heimilt að fella gömul tré og hins vegar til hvaða ráða megi grípa vegna umfangs og hæðar trjáa í garði nágrannans.
Þannig eru „litlu, fallegu jólatrén“ sem gróðursett voru fyrir hálfri öld eða svo víða orðin vandamál, sem mun bara vaxa á næstu árum.
Í Hæstarétti féll á fyrradag dómur í máli eigenda tveggja lóða í Kópavogi. Í dómnum, sem skýrt var frá í Morgunblaðinu í gær, er fallist á kröfu stefnanda um að fjarlægð verði tvö grenitré, sem eru um átján metra há.